Þrátt fyrir að hafa hafið rekstur í miðjum heimsfaraldri hefur Sælkerabúðin farið mjög vel af stað að sögn Viktors Arnar Andréssonar, sem á og rekur verslunina ásamt félaga sínum Hinriki Erni Lárussyni. Í raun má færa rök fyrir því að verslunin hafi ekki getað hafið rekstur á betri tíma, þar sem fjöldatakmarkanir vegna heimsfaraldursins hafa gert það að verkum að landsmenn hafa í auknum mæli leitast eftir því að halda fámennar veislur heima fyrir í stað þess að fara á veitingahús.

„Frá því að faraldurinn skall á hefur fólk sótt meira í að halda matarboð fyrir smærri hópa í heimahúsum. Það hefur því verið vinsælt að koma við hjá okkur til að kaupa kjöt, tilbúið meðlæti og sósur, sem tekur þar af leiðandi skamman tíma að matreiða. Ég tel að þessi þróun sé að mörgu leyti komin til að vera. Fólk mun að sjálfsögðu ekki hætta að fara út að borða en mér finnst líklegt að fólk haldi áfram að halda fremur fámenn matarboð heima hjá sér og geri sér lífið auðveldara með því að kaupa mat frá okkur og öðrum sem veita álíka þjónustu," segir Viktor Örn.

Hann segir mikla eftirspurn hafa verið eftir meðlæti og sósum Sælkerabúðarinnar. „Við erum að bjóða upp á meðlæti sem er nær hvergi annars staðar hægt að nálgast tilbúið. Það skapar okkur ákveðna sérstöðu. Styrkleiki okkar er sá að við eigendurnir erum báðir kokkar og kunnum þar af leiðandi að búa til bragðgott meðlæti og leggjum mikinn metnað í það."

Viktor Örn segir að reksturinn hafi farið tiltölulega rólega af stað síðasta sumar, en þegar hausta tók hafi hjólin farið að snúast hraðar. „Það var mjög mikið að gera hjá okkur í október og nóvember á síðasta ári en þessir mánuðir áttu ekki roð í desember - þá var gjörsamlega vitlaust að gera. Það kom okkur svolítið í opna skjöldu hvað jólatörnin var svakalega umfangsmikil."

Miele-eldhúsið og grillbók

Þegar Sælkerabúðin var kynnt til leiks á síðasta ári var jafnframt sagt frá Miele-eldhúsinu, en umrætt eldhús er í rými inn af Sælkerabúðinni. Um er að ræða fjölnotarými, sem rúmar allt að fimmtán manns, sem hægt er að nota við ýmis tækifæri t.d. fyrir fundi, hópefli og námskeið. Ekki gafst færi á að byrja að hleypa viðskiptavinum að í Miele-eldhúsið fyrr en nýlega vegna strangra samkomutakmarkana.

„Núna erum við t.d. að halda kokteilnámskeið þar, auk námskeiðs þar sem kennt er að para saman mat og víni. Svo bjóðum við einnig upp á að hópar, líkt og fjölskylda, vinnufélagar eða vinahópur, mæti þangað í kvöldverð. Þarna erum við með „fine dining" stemningu þar sem fólk fær að smakka nokkra mismunandi rétti og getur parað vín saman við hvern og einn rétt," segir Viktor Örn.

Að auki vinna þeir félagar að útgáfu grillbókar Sælkerabúðarinnar. „Í bókinni verða teknir fyrir þeir réttir sem við erum með til sölu í búðinni, og fleiri til, og farið yfir helstu undirstöðuatriði. Hvað þarf að undirbúa, hvernig skuli matreiða meðlæti, sósur og svo framvegis," segir Viktor Örn. Bókin mun vera fáanleg í Sælkera-búðinni sem og á fleiri stöðum. Hann segir vonir standa til að bókin rati í hillur verslana í maí, um það leyti sem Sælkerabúðin fagnar eins árs afmæli.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér . Meðal annars efnis í blaðinu er:

  • Fjallað er um miklar lántökur Reykjavíkurborgar á næstunni og vaxtakjör sveitarfélaganna.
  • Sagt er frá áformum um að slíta sjóðum sem Kvika stýrir á Bretlandi.
  • Umfjöllun um deilur Íslandshótela við leigusala um hótel félagsins við Höfðatorg.
  • Fjallað er um ýmsar úrbætur sem orðið hafa hérlendis og eru til þess fallnar að sporna við spillingu. Nær engin umfjöllun er um úrbætur undanfarinna ára í skýrslu íslenskra prófessora.
  • Íslenskt tölvuleikjafyrirtæki er metið á ríflega 15 milljarða króna.
  • Kjartan Ragnars, nýr framkvæmdastjóri Rafmyntaráðs, er tekinn tali.
  • Gunnar Baldvinsson, sem hefur skrifað bækur og fjármál einstaklinga og lífeyrismál, fer yfir bókaútgáfuferilinn.
  • Huginn og Muninn eru á sínum stað, auk Týs sem fjallar um áfengisverslun.