Breytilegir verðtryggðir vextir sjóðfélagalána Birtu lífeyrissjóðsins standa nú í 1,39%. Vaxtabreytingin tekur gildi frá og með 1. júlí 2020 en breytilegir verðtryggðir vextir sjóðsins báru 1,74% vexti fyrir breytinguna og því nemur lækkunin 0,35 prósentustigum.

Breytileg verðtryggð lán Birtu bera nú lægstu vextina í þessum flokki en þau eru 0,12% lægri en næst-hagstæðustu lánin sem fást hjá Festu lífeyrissjóði en þau bera 1,51% vexti, samkvæmt vef Aurbjargar .

Vextir óverðtryggðra sjóðfélagalána Birtu lækkuðu einnig þann 1. júní síðastliðinn og standa nú í 2,10% sem er um 1,4 prósentustigum lægri en næst-hagstæðustu lánin í sama flokki sem fást hjá Landsbankanum og Íslandsbanka.

Í tilkynningu Birtu samhliða ákvörðun um að opna aftur fyrir endurfjármögnun sjóðfélagalána þann 18. júní síðastliðinn segir að vextir á sjóðfélagalánum sjóðsins hafa undanfarið verið lægstir í samanburði við aðrar lánastofnanir, þá sérstaklega breytilegra vaxta á óverðtryggðum lánum sjóðsins.

Þar kom fram að stjórn Birtu fer í haust yfir stöðuna í starfseminni eins og gert er árlega. Fjallað verður um vexti á sjóðfélagalánum, markaðsvexti yfirleitt og endurmat lagt á verðlagningu á áhættu, kostnaði og þjónustu neytendalána.