Óverðtryggð sjóðfélagalán Birtu lífeyrissjóðsins bera 2,10% breytilega vexti og eru um 1,4 prósentustigum lægri en næst-hagstæðustu lánin í sama flokki sem fást hjá Landsbankanum samkvæmt vef Aurbjargar . Verðtryggð sjóðfélagalán Birtu bera nú 1,74% breytilega vexti eða 3,6% fasta vexti. Þetta kemur fram á vef sjóðsins .

Birta hefur tímabundið lokað fyrir umsóknir um endurfjármögnun lána vegna álags sem fylgir greiðsluerfiðleikaúrræðum ríkisstjórnarinnar vegna Covid.

Vextirnir hafa því lækkað um 0,75% frá því í apríl síðastliðnum . Ástæða vaxtabreytinganna er vegna lækkun meginvaxta Seðlabankans en þeir lækkuðu einmitt um 0,75% fyrir rúmlega tveimur vikum síðan .

Lán Birtu eru í boði fyrir sjóðfélaga sem greitt hafa að lágmarki sex síðustu mánuði í samtryggingu eða eiga samfellda greiðslusögu í sjóðinn að uppfylltum öðrum skilyrðum. Hámarks veðsetningarhlutfall er 65% af fasteignamati en einnig eru veitt viðbótarlán frá 65-75% ef um fyrstu kaup er að ræða.

Breytilegir vextir verðtryggðra sjóðfélagalána Birtu sem standa í 1,74% eru nú þeir næst-lægstu sem stendur lántakendum á Íslandi til boða en Festa lífeyrissjóðurinn býður 1,7% vexti á sambærilegum lánum.

Vaxtakjör Birtu fylgja stýrivöxtum

Vaxtakjör Birtu hafa ákvarðast síðustu þrjú árin þannig að 1,1% álag er lagt á stýrivexti Seðlabankans. Stjórn Birta hefur þó velt fyrir sér hvort stýrivextir séu enn hæfilegt viðmið þar sem töluvert hefur reynt á samband stýrivaxta og markaðsvaxta á síðustu misserum.

„Þetta kemur sér auðvitað vel fyrir þá sem eru með þessa vexti, en þeir eru afar kvikir. Við veltum því stundum fyrir okkur hvernig sjóðfélagar muni bregðast við ef vextir hækka eins hratt og mikið og þeir hafa verið að lækka upp á síðkastið,“ sagði Ólafur Sigurðsson, framkvæmdastjóri Birtu, í viðtali við Viðskiptablaðið fyrir tæpum sex vikum síðan .