*

miðvikudagur, 4. ágúst 2021
Erlent 15. júlí 2021 07:03

Breyting App­le byrjuð að bitna á Face­book

Einungis fjórðungur af iPhone notendum samþykkir beiðni smáforrita um leyfi fyrir söfnun á persónugögnum.

Ritstjórn
Mark Zuckerberg, stofnandi og forstjóri Facebook.
epa

Auglýsendur á Facebook eru farnir að hafa miklar áhyggjur af afleiðingum nýlegra breytinga Apple sem gera iPhone notendum kleift að takmarka getu forrita til að fylgjast með stafrænum fótsporum sínum. Einungis fjórðungur af iPhone eigendum gefa smáforritum leyfi til að fylgjast með þeim í gegnum svokallað auglýsinga auðkenni, sem m.a. hefur verið nýtt í persónusniðnar auglýsingar. Bloomberg greinir frá.

Breytingin, sem var innleidd í iOS uppfærslu í byrjun júní, felur í sér að notendur smáforrita eru spurðir um leyfi fyrir söfnun á persónugögnum um athafnir þeirra á netinu. Stór meirihluti hafnar þessari beiðni, samkvæmt greiningu fyrirtækisins Branch, sem greinir vöxt hjá snjallsímaforritum.

Auglýsendur á Facebook eru farnir að finna fyrir áhrifum breytinganna sem veldur því að Facebook getur ekki áreiðanlega greint frá því hversu mikil sala kemur frá notendum samfélagsmiðilsins og því er erfiðara fyrir fyrirtæki að sjá hvaða auglýsingar ná til neytenda. Einnig veldur þetta erfiðleikum fyrir Facebook að miða auglýsingum aftur til notenda sem skoðuðu tilteknar vörur eða þjónustu án þess að kaupa þær.  

Um 75% af iPhone notendum heims hafa hlaðið niður nýjasta stýrikerfinu samkvæmt Branch. Talsmaður Facebook neitaði að gefa upp hlutfall notenda sem samþykkt hefur rakningarbeiðni smáforritsins.

Gæti leitt til 7%-13% tekjusamdrátts

Greinandinn Eric Seufert, sem heldur úti viðskiptablogginu Mobile Dev Memo, áætlar að iOS breytingarnar muni leiða til 7% tekjusamdráttar hjá Facebook á þriðja ársfjórðungi, fyrsta uppgjöri sem breytingarnar ná til í heild sinni, ef einungis 20% notenda samþykkja rakningarbeiðnina. Sé hlutfallið 10% gætu tekjur Facebook lækkað um allt að 13,6%, samkvæmt líkönum Seufert. Netrisinn birtir uppgjör fyrir annan ársfjórðung í lok júlí.

Markaðsfyrirtæki sem sjá um auglýsingaherferðir á Facebook fyrir viðskiptavini sína segja að áður en breytingarnar tóku gildi náði Facebook utan um rúmlega 95% af sölu fyrirtækjanna en nú sé hlutfallið talsvert lægra. Homestead Studio, sem leggur milljónir dala í Facebook auglýsingar í hverjum mánuði, segir að 57% gjá sé á milli sölunnar sem það sjái í sölukerfi Shopify og það sem Facebook greinir frá.

Samfélagsmiðillinn hefur gagnrýnt nýju persónuverndarstefnu Apple í nokkra mánuði og haldið því fram að breytingarnar bitni mest á litlum fyrirtækjum sem reiða á miðaðar auglýsingar og sölu í gegnum Facebook. Talsmaður Facebook segir að fyrirtækið sé nú að þróa nýjar lausnir sem krefjist minni gagna til að mæla velgegni auglýsinga.

Stikkorð: Apple Facebook auglýsendur iOS