Hluti umsagnaraðila við frumvarp til nýrra lyfjalaga setur út á það að frelsi til sölu lausasölulyfja í almennum verslunum verði ekki aukið. Aðrir lýsa yfir áhyggjum af því að Landspítalanum verði fært hálfgert einræðisvald um innkaup og verð á leyfisskyldum lyfjum.

Núgildandi lyfjalög eru komin nokkuð til ára sinna en í fyrra fögnuðu þau 25 ára afmæli sínu. Stefnt hefur verið að endurskoðun þeirra um nokkurt skeið en árið 2016 lagði þáverandi heilbrigðisráðherra, Kristján Þór Júlíusson, fram nýtt heildarfrumvarp um efnið. Frumvarpið nú var kynnt í samráðsgátt stjórnvalda í byrjun síðasta árs og barst fjöldi umsagna. Hefur það tekið nokkrum breytingum síðan þá í samræmi við athugasemdir en fáein umdeild atriði standa eftir.

Samkvæmt gildandi lyfjalögum skal starfrækt lyfjagreiðslunefnd en hlutverk nefndarinnar er meðal annars að ákveða hámarksverð á lyfseðilsskyldum lyfjum, hvort og í hve miklum mæli sjúkratryggingar taka þátt í greiðslu og greiðsluþátttöku í svokölluðum undanþágulyfjum. Þá annast nefndin útgáfu lyfjaverðskrár.

Vandi við markaðssetningu

Áður en lengra er haldið er rétt að gera grein fyrir því að ekki eru öll lyf sköpuð jöfn. Annars vegar eru til almenn lyf og hins vegar sérstök sjúkrahúslyf, í daglegu tali kölluð S-merkt lyf. Samkvæmt reglugerð hefur almennt borið að miða verð þeirra við lægsta verðið annars staðar á Norðurlöndunum. Við verðákvörðun á almennum lyfjum ber á móti að líta til meðaltalsverðs.

Það fyrirkomulag getur skapað ýmis vandkvæði í framkvæmd en lyfjagreiðslunefndir landanna í kring fylgjast með verðskrám annarra landa. Í einhverjum tilfellum getur lágt verð á örmarkaðnum Íslandi leitt til þess að framleiðendur veigri sér við að markaðssetja lyf hér á landi þar sem það lækkaði verð annars staðar. Við þessu var brugðist í fyrra með breytingum á reglum lyfjagreiðslunefndar. Samkvæmt frétt á heimasíðu hennar er heimilt að „samþykkja hámarksverð leyfisskyldra lyfja/S-merktra lyfja sem er hærra en lægsta verð lyfsins í viðmiðunarlöndunum, þó ekki hærra en meðalverð lyfsins í viðmiðunarlöndunum, hafi tekist samningar í kjölfar innkaupaferlis, um kaup á viðkomandi lyfi sem tryggja að innkaupsverð verði lægra en lægsta verð í viðmiðunarlöndum".

Í frumvarpinu nú er lagt til að nefndin verði lögð niður og að ákvarðanir um verðlagningu ávísanalyfja færist til Lyfjastofnunar. Verðlagning lausasölulyfja verður frjáls. Hluti verkefna nefndarinnar færist hins vegar til nýrra lyfjanefndar LSH. Hin nýja lyfjanefnd mun meðal annars ákveða hvaða lyf verða tekin í notkun á heilbrigðisstofnunum og veita umsagnir þegar Lyfjastofnun tekur ákvarðanir um verðlagningu.

„Þá er hlutverk nefndarinnar jafnframt að taka ákvarðanir um einstaklingsbundna greiðsluþátttöku í lyfjum sem ekki falla undir almenna greiðsluþátttöku en Landspítali greiðir vegna faglegrar og fjárhagslegrar ábyrgðar," segir í frumvarpinu.

Í lögunum er kveðið á um að nefndin skuli skipuð af forstjóra LSH til fimm ára í senn en ekki er kveðið á um fjölda nefndarmanna. Nefndinni verður skylt að bera ákvarðanir og umsagnir sem hafa „verulegan kostnað í för með sér" undir forstjóra LSH en ekki er útskýrt frekar hvort það sé til synjunar eða samþykkis. Ekki er heldur skýrt frekar hvað felst í „verulegum kostnaði" og ekki ljóst hvort það taki til tilfella er fjölmennur hópur þarf nokkuð dýrt lyf eða ef einn ákveðinn einstaklingur þarf sérstaklega dýrt lyf. Ákvarðanir nefndarinnar verða endanlegar á stjórnsýslustigi og eingöngu hægt að leita endurskoðunar á þeim með dómstólaleiðinni.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .