Breytinga er að vænta hjá Íslandsbanka og hafa starfsmenn bankans erlendis verið kallaðir heim, samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins.

Heimildarmenn blaðsins segja að starfsmenn Íslandsbanka í London, Lúxemborg, Danmörku og Noregi hafi verið kallaðir heim á fund á laugardaginn.

Ekki hefur komið í ljós hvað verður tilkynnt á fundinum en getgátur eru um að bankinn sé að sameinast erlendum banka. Þetta hefur þó ekki fengist staðfest og sumir viðmælendur Viðskiptablaðsins telja að ólíklegt sé að það sé raunin. Einn viðmælandi sagði að aðeins væri verið að þjappa saman starfsmannahópnum.

Íslandsbanki samþykkti nýlega að kaupa 50,1% hlut í norska fjármálafyrirtækinu Union Group, en bankinn hefur einnig verið orðaður við banka á Jótlandi í Danmörku.