Kauphöllinni barst í dag tilkynning um að Landsbankinn hafi selt 7% af tæplega 15% hlut sínum í Og Vodafone, alls að nafnvirði 244 m.kr. Sölugengið var 4,2 sem er sama gengi og Norðurljós greiddu fyrir 35% hlut fyrir tæpum hálfum mánuði. Kaupandi hlutarins er Riko Corp., en aðaleigendur þess eru Sigurður Bollason og Magnús Ármann. Þegar Norðurljós keyptu sinn hlut töldum við 17,6% yfirverð nokkuð sanngjarnt fyrir ráðandi hlut. Nú greiðir Riko Corp. 13,5% yfirverð fyrir 7% hlut í félaginu. Telja verður líklegt að þessir nýju eigendur muni fylgja Norðurljósum í stjórn félagsins, en eigendur viðkomandi félaga hafa áður ráðist í fjárfestingar saman segir í Hálffimm fréttum KB banka.

Auk þess hlutar sem Landsbankinn seldi í dag hefur bankinn gert framvirka samninga um sölu á 1,5% hlut til viðbótar, að nafnvirði rúmlega 52 m.kr.