Jafet S. Ólafsson framkvæmdastjóri hefur selt tæplega fjórðungshlut sinn í VBS fjárfestingarbanka hf. og mun eftir viðskiptin eiga um 2% hlut í fyrirtækinu. Kaupandi er FSP en fyrir á félagið um 13% hlut í VBS segir í fréttatilkynningu félagsins.

Kaup þessi eru háð samþykki Fjármálaeftirlitsins, en gert er ráð fyrir afgreiðslu eftirlitsins innan örfárra vikna. Í framhaldi af því verður boðað til hluthafafundar í VBS og kosin ný stjórn. Markmið FSP með þessum kaupum eru að styrkja og stækka VBS fjárfestingarbanka til enn frekari sóknar á íslenskum fjármálamarkaði segir í tilkynningunni.

Hluthafar í VBS fjárfestingarbanka eru nú um 70 talsins. Starfsmenn eru 24.
FSP er framsækið fjárfestingarfélag í eigu 20 sparisjóða og Sparisjóðabanka Íslands. Stærstu eigendur félagsins eru Sparisjóður Vélstjóra og Sparisjóðurinn í Keflavík.