Kristinn Aðalsteinsson og Þorsteinn Kristjánsson, stjórnarmenn og eigendur Eskju á Eskifirði, hafa gert samning um kaup á öllu hlutafé Elfars Aðalsteinssonar, starfandi stjórnarformanns og meðeiganda þeirra. Í kjölfarið mun Elfar láta af stjórnarformennsku en hluthafafundur verður haldinn á næstunni og ný stjórn skipuð.

Eskja á Eskifirði gerir út þrjú fiskiskip og rekur bæði bolfiskvinnslu og mjöl- og lýsisvinnslu í landi. Að sögn eigenda Eskju telja þeir að fjölmörg tækifæri felist í rekstrinum og framtíðarstaða félagsins sé sterk.

Að sögn Elfars Aðalsteinssonar mun hann snúa sér að nýjum verkefnum m.a. að eigin útgerð. "Ég hef stýrt Eskju síðastliðin fjögur ár og haft af því mikla ánægju enda hafa síðustu misseri verið tími uppbyggingar og reksturinn gengið vel. Ég vil þakka öllu starfsfólki fyrirtækisins fyrir þeirra framlag og þolinmæði í umbreytingum síðustu ára um leið og ég óska því og eigendum velfarnaðar í framtíðinni." segir Elfar í frétt á heimasíðu félagsins.