Bankastjórn Landsbankans hefur ákveðið að aðlaga skipurit bankans á nokkrum sviðum að stefnu bankaráðs um aukna áherslu á sölu- og markaðsstarf. Breytingar verða gerðar á framkvæmdastjórn og skipulagi á nokkrum sviðum bankans sem miða að því að efla sölu- og markaðsstarf og bæta þjónustu við viðskiptavini bankans.

Nýtt svið, Sölu- og markaðssvið mun eftirleiðis annast um allt markaðs- og sölustarf bankans á einstaklingsmarkaði ásamt því að sinna þjónustumálum. Hermann Jónasson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri sviðsins, en hann var áður forstöðumaður fyrir verðbréfa- og lífeyrisþjónustu bankans.

Sérstakt svið verður stofnað um sérbankaþjónustu og skattaráðgjöf sem áður var á Eignastýringarsviði. Sviðið mun annast sérbankaþjónustu á Íslandi og í samstarfi við Landsbanka Luxemborg. Ingólfur Guðmundsson er framkvæmdastjóri sviðins, en hann var áður framkvæmdastjóri Eintaklings- og markaðssviðs.