Á aðalfundi Nýherja var samþykkt sú tillaga stjórnar að lækka hlutafé um 26 milljónir kr. sem framkvæmd verður með þeim hætti að færð verða niður bréf í eigu félagsins. Þá var samþykkt heimild félagsins til kaupa á eigin hlutum. Samþykkt var að greiða 15% arð vegna ársins 2004.

Á aðalfundinum var kjörin ný stjórn. Hana skipa Benedikt Jóhannesson, formaður, Árni Vilhjálmsson, varaformaður, og Hannes Guðmundsson, meðstjórnandi, en hann var kjörinn í stað Hilmars B. Baldurssonar sem lét af setu í stjórn fyrirtækisins en Hilmar hefur verið stjórnarmaður frá árinu 1997. Varamenn voru kjörnir þeir Guðmundur Jóh. Jónsson og Örn D. Jónsson.

Nýtt skipulag ? Betri þjónusta við viðskiptavini

Á fundinum kynnti Þórður Sverrisson, forstjóri Nýherja, breytingar á stjórnskipulagi fyrirtækisins. Helstu breytingar eru þær að stofnað hefur verið sameiginlegt sölusvið auk þess sem afurðarsvið verða þrjú í stað fimm áður. Markmið breytinganna er að efla viskiptatengsl og sölu fyrirtækisins, og einfalda aðgengi viðskiptavina að þjónustu Nýherja. Með þessu næst fram samþætting í þjónustuframboði í samræmi við þarfir viðskiptavina og aukin hagkvæmni í rekstri.

Með breytingunum mun Nýherji mæta betur þörfum hvers viðskiptavinar og veita viðskiptavinum fyrirtækisins virðisauka með þekkingu starfsmanna á upplýsingatækni og rekstri fyrirtækja. Skipulagsbreytingarnar taka formlega gildi 1. febrúar nk.

Sölusvið

Sölusvið er ábyrgt fyrir samskiptum og sölu við viðskiptavini fyrirtækisins, en það er skipað viðskiptastjórum og söluráðgjöfum með breiða þekkingu á vörum Nýherja, auk þess sem þjónustuver fyrirtækisins sinnir símsvörun o.fl. Framkvæmdastjóri Sölusviðs er Emil Einarsson.

Kjarnalausnir

Kjarnalausnir Nýherja annast þjónustu og vörustjórn fyrir netþjóna, samskiptabúnað og býður hýsingu í gegnum Umsjá Nýherja, auk þess sem miðtölvuþjónusta og netþjónusta er nú innan eins sviðs í stað tveggja áður. Þannig er hægt að stýra markvissar þjónustu eftir virðiskeðjum sem aðlagaðar eru að þörfum viðskiptavina og jafnframt næst fram hagræðing með fækkun sviða. Framkvæmdastjóri Kjarnalausna er Þorvaldur Jacobsen.

Notendalausnir

Notendalausnir Nýherja veita þjónustu og annast vörustjórnun fyrir PC tölvur, prentara, stafrænar myndavélar, hljóð- og myndlausnir, prentsmiðjulausnir o.fl. Jafnframt er þjónusta við fyrrgreindan búnað innan Notendalausna. Framkvæmdastjóri Notendalausna er Erling Ásgeirsson.

Hugbúnaðarlausnir

Hugbúnaðarlausnir Nýherja veita ráðgjöf og þjónustu við val, aðlögun og innleiðingu á stöðluðum og sérsniðnum hugbúnaðarlausnum sem auka hagræðingu og öryggi í rekstri og styrkja samkeppnisstöðu fyrirtækja. Framkvæmdastjóri Hugbúnaðarlausna er Kristján Jóhannsson.