Hluthafafundur FL Group var haldinn í morgun. Þar voru m.a. gerðar breytingar á stjórn félagsins, samkvæmt upplýsingum frá FL Group.

Jóni Ásgeiri Jóhannessyni er samkvæmt hlutafélagalögum ekki heimilt að sitja í stjórn íslenskra félaga eftir dóm Hæstaréttar í Baugsmálinu og víkur hann því úr stjórn félagsins. Ingibjörg Pálmadóttir, eiginkona Jóns Ásgeirs kemur inn í stjórn, sem stjórnarformaður.

Ásamt Ingibjörgu voru kjörin í stjórn: Katrín Pétursdóttir, Eiríkur Jóhannsson, Þorsteinn M. Jónsson og Árni Hauksson. Varamenn eru: Einar Þór Sverrisson og Þórður Bogason.

Allar tillögur sem fráfarandi stjórn lagði fyrir voru samþykktar á fundinum.

Ekkert mælir gegn því að Jón Ásgeir sitji í stjórn erlendra félaga, þrátt fyrir dómsuppkvaðninguna.