Flemming R. Jakobs og Lilja Dóra Halldórsdóttir voru kjörin í stjórn Samskipa á aðalfundi félagsins í gær í stað Jóns Kristjánssonar og Jóns Þórs Hjaltasonar. Aðrir stjórnarmenn, Guðjón Ármann Jónsson, Karsten M. Olesen og Ólafur Ólafsson, voru endurkjörnir.

Lilja Dóra Halldórsdóttir er aðjúnkt við viðskiptadeild Háskólans í Reykjavík, með stjórnun og stefnumótun sem sérsvið. Hún útskrifaðist sem lögfræðingur frá Háskóla Íslands árið 1994 og lauk MBA prófi frá Vlerick Leuven í Gent í Belgíu árið 2001. Lilja Dóra var sjálfstætt starfandi ráðgjafi á árunum 2003-2004, áður en hún hóf störf hjá Háskólanum í Reykjavík. Þar áður starfaði hún hjá Eftirlitsstofnun EFTA í Brussel í fimm ár, frá 1998 til 2003.

Daninn Flemming R. Jakobs er með fjörutíu ára reynslu í alþjóðlegum siglingum og flutningastarfsemi og hefur gegnt háttsettum störfum í greininni í Evrópu, Asíu og Norður-Ameríku. Frá maí 1999 til janúar 2003 var Flemming forstjóri og stjórnarformaður Neptune Orient Lines Ltd. í Singapore. Samtímis var hann einnig forstjóri American President Lines (APL) og varastjórnarformaður í American Eagle Tankers Inc. og APL Logistics Ltd. Þar áður starfaði Flemming R. Jakobs í 39 ár hjá A.P. Møller í Kaupmannahöfn, síðast sem meðeigandi og forstjóri Mærsk Tankers. Flemming hefur einnig sinnt fjölmörgum trúnaðarstörfum sem tengjast alþjóðlegri í flutningastarfsemi á alþjóðavettvangi. Hann er með gráðu frá Harvard Business School árið 1974 og var valinn viðskipamaður ársins í Asíu árið 2001 af sjónvarpsstöðinni CNBC.