Actavis hefur gert breytingar á stjórnendateymi samstæðunnar og hjá dótturfélagi sínu í Bandaríkjunum, segir í fréttatilkynningu.

Fearghal Murphy hefur verið skipaður í stöðu framkvæmdastjóra framleiðslustýringar og mun taka sæti Elin Gabriel, sem lét nýlega af störfum hjá félaginu. Þá mun Doug Boothe taka við stöðu framkvæmdastjóra sölu og markaðssviðs í Bandaríkjunum og munu báðir taka sæti í framkvæmdastjórn samstæðunnar.


Fearghal gekk til liðs við Actavis árið 2003 og starfaði nú síðast sem yfirmaður innkaupasviðs. Hann útskrifaðist frá háskólanum í Limerick á Írlandi með gráðu í iðnaðarverkfræði og meistaragráðu í verkfræði. Helstu verkefni hans verða að hámarka nýtingu og skilvirkni framleiðslueininga samstæðunnar í samvinnu við yfirmenn framleiðslusviða.

Doug hefur starfað hjá markaðssviði Actavis í Bandaríkjunum frá árinu 2005, en hann gekk til liðs við félagið í kjölfar kaupa félagsins á lyfjafyrirtækinu Alpharma. Doug mun bera ábyrgð á sölu og markaðsmálum samstæðunnar í Bandaríkjunum.

Þá mun Sigurður Óli Ólafsson, sem gegnt hefur stöðu framkvæmdastjóra Actavis í Bandaríkjunum, snúa á ný til höfuðstöðva félagins á Íslandi, en hann tók nýlega við stöðu aðstoðarforstjóra eins og áður hefur verið tilkynnt.

Einnig hafa verið gerðar breytingar á yfirstjórn félagsins í Bandaríkjunum, sem gerðar eru í kjölfar ört vaxandi starfsemi og sölu þar í landi. Divya Patel, sem starfað hefur hjá Actavis síðan félagið keypti lyfjafyrirtækið Amide í Bandaríkjunum árið 2005, verður starfandi stjórnarformaður. Í stjórn félagsins í Bandaríkjunum munu einnig sitja þeir Steinþór Pálsson, framkvæmdastjóri framleiðslusvið, Doug Boothe, framkvæmdastjóri sölu og markaðssviðs og Kevin Bain, fjármálastjóri.