Eins og fram kom í tilkynningunni Íbúðalánasjóðs frá 29. september s.l. um breytingu á útgáfu hreyfingarskýrslu þá er sjóðurinn nú hættur að vinna og gefa út hreyfingarskýrsluna. Tilgangur hreyfingarskýrslunnar var að upplýsa markaðinn um útgáfu húsbréfanna og hvers vænta mætti af útgáfunni næstu daga. Var skýrsla þessi venjulegast gefin út vikulega en var á tímabili gefin út tvisvar í viku. Var þetta gert til að auðvelda markaðnum að verðleggja húsbréfin út frá væntri útgáfu húsbréfa. Vegna þessa var að finna í skýrslunni upplýsingar um afgreidd húsbréf, hversu mikið væri af afgreiddum fasteignaveðbréfum sem ekki hafði verið skipt fyrir húsbréf, svo og upplýsingar um innkomnar umsóknir og afgreiddar.

Með því að Íbúðalánasjóður hætti útgáfu húsbréfa nú um mitt árið er því ekki lengur ástæða til að gefa hreyfingarskýrsluna út, enda engin dagleg útgáfa markaðsverðbréfa hjá sjóðnum lengur. Íbúðabréfin sem sjóðurinn gefum út í dag eru einungis seld á uppboðum, annaðhvort lokuðum eða opnum. Þegar um lokuð útboð er að ræða er ætíð upplýst um sölu þeirra að þeirri sölu lokinni og hefur hingað til einungis verið farið í lokuð útboð þegar selt er til erlendra fjárfesta. Þegar um opin útboð er að ræða þá er auglýst opinberlega með fyrirvara þessi ætlan sjóðsins og hvað hann hyggist selja mikið auk þess sem sjóðurinn tilkynnir síðan um endanlega niðurstöðu útboðsins þegar því er lokið. Allar upplýsingar um útgáfu markaðsverðbréfa hjá Íbúðalánasjóði koma því fram jafn óðum auk þess sem sjóðurinn stefnir að því að gefa upplýsingar um stöðu flokkanna og samantekna útgáfu mánaðarins í mánaðarskýrslu sinni. Í þessu sambandi er rétt að benda á að allar þessar upplýsingar eru birtar á heimasíðu Kauphallar Íslands (www.icex.is) og að þar er jafnframt hægt að fletta upp öllum fréttum frá Íbúðalánasjóði undir fréttaflokkum.

Varðandi vænta framtíðarútgáfu Íbúðalánasjóðs á íbúðabréfum þá gefur sjóðurinn ársfjórðungslega út áætlun um sölu íbúðabréfa og er sú áætlun til lágmark næstu 12 mánaða. Þessi áætlun er reglulega endurskoðuð og stefnt er að því að gefa í framtíðinni betri vísbendingar um hugsanlega þróun sölunnar þegar aðstæður eru þannig að reiknað sé með að einhver frávik verði frá þeirri áætlun sem sjóðurinn hefur gefið út. Þessi áætlun er síðan endurskoðuð á 3ja mánaða fresti og endurútgefin í endurskoðuðu formi.

Í framtíðinni mun Íbúðalánasjóður, líkt og hingað til, birta mánaðarskýrslu sína í síðasta lagi í 2. viku hvers mánaðar og endurskoðaða útgáfuáætlun að lágmarki í 3 viku fyrsta mánaðar hvers ársfjórðungs. Markaðurinn verður því áfram vel upplýstur um útgáfu Íbúðalánasjóðs á markaðsverðbréfum svo og vænta útgáfu þeirra.