Finnur Árnason hefur verið ráðinn forstjóri Haga hf. Tekur hann við af Jóni Björnssyni þann 10. ágúst næstkomandi, en Jón mun taka við starfi forstjóra Magasin du Nord í Danmörku. Samhliða forstjóraskiptum mun Jóhannes Jónsson taka við stjórnarformennsku Haga af Jóni Ásgeiri Jóhannessyni að því er fram kemur í fréttatilkynningu frá félaginu.

Jóhanna Waagfjörð sem gengt starfi framkvæmdastjóra fjármálasviðs hjá Högum hf. (áður Baugi) frá 2001, tekur við stöðu framkvæmdastjóra Haga hf. Þá mun Árni Pétur Jónsson, framkvæmdastjóri rekstrarsviðs Haga taka við stöðu forstjóra Og Vodafone.

Finnur hefur starfað hjá Högum ( áður Baugi ) frá stofnun fyrirtækisins árið 1998, undanfarin ár sem framkvæmdastjóri Hagkaupa. Finnur er viðskiptafræðingur frá Háskóla Íslands og lauk prófi í rekstrarhagfræði frá University of Hartford árið 1987. Finnur er kvæntur Önnu Maríu Urbancic, MS í viðskiptafræðum og eiga þau fjögur börn.