Emil Grímsson lætur af störfum sem forstjóri hjá P. Samúelssyni hf. frá og með 7. febrúar n.k. Stjórnarformaður fyrirtækisins Úlfar Steindórsson mun frá sama degi taka við starfi framkvæmdastjóra fyrirtækisins. Emil hefur starfað hjá fyrirtækinu í 16 ár og vill stjórn félagsins þakka honum hans þátt í velgengni félagsins. Hann hefur á sama tíma selt hluti sína í bæði P. Samúelssyni hf. og Eignarhaldsfélaginu Stofni ehf. og jafnframt hefur hann keypt Arctic Trucks ehf., sem var í eigu Stofna ehf. Arctic Trucks ehf. verður fyrst um sinn til húsa að Nýbýlavegi 2, en mun flytja í eigið húsnæði innan 6 mánaða. Páll Samúelsson tekur við starfi stjórnarformanns P. Samúlessonar hf., af Úlfari frá sama tíma.

Toyota umboðið og eigendur þess hafa allt frá upphafi lagt mikla áherslu á góða þjónustu og hefur markmiðið ávallt verið að geta veitt viðskiptavinum víðtæka þjónustu til lífstíðar. Góð vara og hæfir starfsmenn, sem veitt hafa framúrskarandi þjónustu, hafa gert þetta mögulegt. Toyota hefur verið algengasta bílategundin í umferð hér á landi síðan 1988 og samfleytt síðan 1990 hefur Toyota verið vinsælasti bíllinn hér á landi, sem er einsdæmi í Evrópu. Stuðningur höfuðstöðva Toyota í Evrópu hefur verið og verður áfram mikilvægur þáttur til að viðhalda þeim árangri sem fyrirtækið hefur náð á íslenska bílamarkaðnum.