*

föstudagur, 25. september 2020
Innlent 27. júlí 2016 10:07

Breytingar á almannatryggingum góðar

Viðskiptaráð styður breytingar á lögum um almannatryggingar en vill að fjármögnun þeirra komi með niðurskurði.

Ritstjórn
Lífeyristökualdur verður hækkaður í áföngum upp í 70 ár.
Getty Images

Í umsókn Viðskiptaráðs um frumvarp til breytinga á lögum um almannatryggingar kemur fram að ráðið styður þær breytingar sem í því felast. Þó gagnrýnir Viðskiptaráð að ekki liggi fyrir hvernig fjármögnun þeirra verði háttað.

Lífeyristökualdur hækkar í 70 ár

Styður Viðskiptaráð að lífeyristökualdur hækki í 70 ár úr 67 árum líkt og er nú. Jafnframt styður ráðið að almannatryggingakerfið verði einfaldað, því það þýði réttlátara, einfaldara og gegnsærra kerfi en áður.

Segja þeir einnig til bóta að gera töku lífeyris sveigjanlegri með því að heimila frestun lífeyristöku til 80 ára aldurs sem og heimild til minnkandi starfshlutfalls á efri árum.

Auk þess vonast ráðið til þess að starfsgetumat það sem verið er að þróa verði innleitt sem fyrst í stað örorkumatsins sem nú er í gildi.

Kostnaður 33 milljarðar

Kemur fram að áætlaður kostnaður sé 33 milljarðar fram til ársins 2027. Gagnrýnir Viðskiptaráð að ekki sé lögð fram ákveðin leið til að fjármagna þessar breytingar, en ráðið leggst algerlega gegn því að tryggingagjald sé hækkað til að vega upp á móti kostnaðinum.

Kemur fram að það þyrfti að hækka um 0,45% til að ríkissjóður skili ekki tapi. Það myndi vera í mótsögn við þá stefnu að lækka gjaldið sem gert hefur verið í áföngum síðan 2012, en það sé enn nokkuð í land að það lækki niður í það sem það var fyrir efnahagshrunið.

Hækkun tryggingagjalds vinnur gegn jákvæðum áhrifum

Segir ráðið að slík hækkun skattlagningar á vinnuframlag einstaklinga muni vinna gegn jákvæðum áhrifum breytinganna með því að draga úr verðmætasköpun allra einstaklinga, og hvetur Viðskiptaráð því til að þær verði fjármagnaðar með niðurskurði opinberra útgjalda.

Nefna þeir sem dæmi að framlög hins opinbera til ýmiss konar samfélagsmótunar nemi um 100 milljörðum króna, og megi endurskoða útgjöld til þeirra málefna til að fjármagna breytingarnar. Meðal þess sem þeir lista upp sem slík málefni er rekstur og fjármögnun á sviðum póstþjónustu, sorphirðu, steypuframleiðslu, trúariðkunar, fjölmiðlunar og annarra atvinnugreina.