Næstkomandi laugardag verður haldinn starfsmannafundur í Arion banka þar sem starfsmönnum verða kynntar fyrirhugaðar breytingar á uppbyggingu og stefnu bankans.

Að sögn Iðu Brá Benediktsdóttur, forstöðumanns samskiptasviðs, hefur verið unnið að stefnumótun bankans og stendur til að kynna þær breytingar á laugardaginn.

Aðspurð segir hún ekki neinar uppsagnir vera fyrirhugaðar í tengslum við fundinn.

„Þetta er hefðbundinn starfsmannafundur líkt og gengur og gerist í fyrirtækjum þegar stjórnendur vilja miðla upplýsingum til starfsmanna. Fundurinn á laugardaginn mun snúa að kynningu á stefnumótun og breytingu á skipulagi bankans,“ segir Iða Brá í samtali við Viðskiptablaðið.

Bryndís og Guðmundur Þórður hætt

Nokkrar mannabreytingar hafa orðið á yfirstjórn bankans. Þau Bryndís Jónsdóttir, sem gegndi starfi starfsmannastjóra, og Guðmundur Þórður Guðmundsson, framkvæmdastjóri markaðsviðskipta, hafa látið af störfum.

Þá hefur Hermann Jónasson hafið störf sem framkvæmdastjóri á þróunar- og markaðssviði.