Wow air hefur fækkað ferðum til Kaupmannahafnar í byrjun næsta árs líkt og greint hefur verið frá. Svanhvít Friðriksdóttir, upplýsingafulltrúi flugfélagsins, sagði í samtali við Viðskiptablaðið í gær að engar sérstakar ástæður væru fyrir fækkun ferðanna og flugáætlanir flugfélaga tækju stöðugum breytingum. Því sé ekki óvenjulegt að ferðunum hafi verið fækkað.

Upplýsingafulltrúar Easyjet og Icelandair taka ekki undir fullyrðingu Svanhvítar um að flugáætlanir breytist stöðugt. Í samtali við Túrista , sem fyrst greindi frá málinu, segir Andy Cockburn frá Easyjet að flugfélagið geri umfangsmiklar rannsóknir áður en þeir hefji flug til nýrra staða til að tryggja að langstærsti hluti flugleiða félagsins njóti vinsælda til lengri tíma og til að lágmarka breytingar á útgefinni flugáætlun.

Þá segir Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair, í samtali við Túrista að félagið geri ekki reglulegar breytingar á sinni flugáætlun.

Uppfært 10:30

Svanhvít hefur sent svar til Túrista þar sem hún segir að um misskilning sé að ræða. „Að sjálfsögðu eru ekki stöðugar breytingar á flugáætlunum með skömmum fyrirvara og WOW air hefur frá upphafi lagt áherslu á að gera sem minnstar breytingar eftir að áætlun hefur verið kynnt. Það sem ég átti við og hefur misskilist er að flugfélög gera stöðugar breytingar á milli ára. Bæta í á sumum stöðum og draga úr á öðrum stöðum. Þetta fer eftir framboði, eftirspurn, nýtingu flugflotans o.s.frv.“