Í fréttabréfi MP Fjárfestingabanka í dag eru vangaveltur um breytingu á félagasamsetningu Aðallista Kauphallarinnar. Þar er bent á að Kögun og Flaga muni líklega falla út og Avion, HB Grandi eða Icelandic Group koma inn

Sérfræðingar MP Fjárfestingabanka benda á að ljóst sé að a.m.k. eitt af þeim 15 félögum sem nú mynda vísitöluna mun ekki koma til greina í næstu samsetningu. Um er að ræða Kögun en yfirtökutilboð hefur verið gert í hlutabréf félagsins og er í kjölfarið stefnt að afskráningu félagsins úr Kauphöllinni. Kögun kemur því ekki til greina og mun falla úr Úrvalsvísitölunni. Flaga mun líklega ekki verða með í næstu samsetningu því þrátt fyrir að vera meðal veltumestu félaga og að uppfylla skilyrði um verðbil þá er flotleiðrétt markaðsvirði félagsins ekki nægilegt til að vera í hópi 15 stærstu og mun félagið því að öllum líkindum falla úr vísitölunni.

"Þrjú félög koma til greina inn í vístölu ? aðeins tvö komast inn
Þau þrjú félög sem helst koma til greina í stað þeirra tveggja sem líklega falla úr vísitölunni eru Avion Group, HB Grandi og Icelandic Group," segir í MP Molum.

Avion Group var skráð í Kauphöllina í janúar síðastliðnum og er því nýjasta félagið á Aðallista. Félagið sem er með stærri félögum í Kauphöllinni er jafnframt eitt af þeim veltumestu og þar sem félagið uppfyllir skilyrði sem sett eru um verðbil ætti að vera nokkuð ljóst að Avion muni að óbreyttu verða hluti af næstu vísitölu.

HB Grandi og Icelandic Group koma bæði til greina sem síðara félagið inn í vísitöluna. HB Grandi sem hefði annars verið í síðustu vísitölu en þurfti þá að víkja fyrir öðru félagi þar sem þeir stóðust ekki verðbilsskilyrði uppfyllir nú skilyrði um verðbil og kemur því til greina sem nýtt félag í vísitölu. Icelandic Group sem hefur um nokkurt skeið ekki uppfyllt skilyrði um nægilega dreift eignarhald uppfyllir nú þau skilyrði en hluthöfum fjölgaði verulega fyrr á þessu ári þegar Straumur greiddi hluta af arði með bréfum í Icelandic Group. Hvort þessara tveggja félaga, HB Grandi eða Icelandic Group, er líklegra inn í næstu vísitölu er þó erfitt að leggja mat á í dag en það virðist fyrst og fremst háð því hvort félagið er stærra samkvæmt flotleiðréttu markaðsvirði.