Sigurður Viðarsson hefur gegnt starfi forstjóra TM frá árinu 2007 en hann hefur verið viðloðinn  tryggingabransann nær alla sína starfsævi. Að hans sögn hefur árið í ár verið erfitt í tryggingarekstri en aukin tíðni tjóna, lægri fjárfestingatekjur og óvenjumörg stórtjón hafa litað afkomu fyrstu níu mánuði ársins. „Við erum á þessum fræga toppi hagsveiflunnar sem er vondur staður fyrir tryggingafélög að vera á. Almennt séð eru tjón enn þá að vaxa þar sem kröftugur hagvöxtur er enn til staðar en á sama tíma eru væntingar um minnkandi hagvöxt sem fjármálamarkaðir hafa tekið inn. Þetta hefur leitt til þess að fjárfestingartekjur hafa lækkað á sama tíma og tjón eru hærri sem er einfaldlega vondur staður fyrir tryggingafélög að vera á.

Almennt séð á milli þessara hæstu og lægstu punkta hagsveiflunnar ættu fjárfestingatekjurnar að vinna upp á móti vexti í tjónum og öfugt þegar tjónin minnka þá förum við hagnast meira á vátryggingarrekstrinum þegar fjárfestingatekjur fara niður. Á toppi hagsveiflunnar er vont að vera tryggingarfélag þar sem bæði fjárfestingatekjur eru niður og tjón upp en aftur á móti er gott að vera á botninum því þá eru tjón á lægsta punkti og væntingar um hagvöxt komnar inn á fjármálamarkaði.

Hvað varðar reksturinn í ár og undanfarinna ára þá erum við að lenda í því, verandi á þessum stað, að tjón eru enn þá að vaxa og ofan á það höfum við fengið óvenjumörg stór tjón ofan á þennan almenna vöxt auk þess sem fjárfestingatekjur hafa verið lágar. Markaðurinn hefur farið niður á árinu en við erum þó með tæplega 5% ávöxtun á árinu sem verður að teljast býsna gott miðað við aðstæður þannig við getum alveg talað um ákveðinn varnarsigur í því samhengi. Arðsemin það sem af er þessu ári er hins vegar óviðunandi til lengri tíma og er tæplega 4% á meðan við höfum verið að skila frá 2010 og að þessu ári meðtöldu 19% arðsemi að meðaltali á ári.“

Tryggingafélög þurfa að aðlagast

Að sögn Sigurðar munu töluverðar breytingar eiga sér stað á næstu árum í rekstri tryggingafélaga. Bæði séu skilin í fjármálastarfsemi að verða óljósari auk þess sem tæknibreytingar muni hafa töluverð áhrif. „Ég hef sagt það áður að ég held að það verði meiri breyting á tryggingabransanum á næstu 10 árum en hefur verið heilt yfir frá upphafi.

síðkastið er að byggja ofan á þá góðu ímynd og þjónustu sem við höfum haft á einstaklingsmarkaði með stafrænum lausnum og þar teljum við okkur hafa verið í fararbroddi. Við höfum verið að selja ökutækjatryggingar á netinu síðan 2006, þótt við gerðum reyndar smá hlé á því af tæknilegum ástæðum í fyrra. En við erum aftur búin að koma upp netsölu á bílatryggingum og fasteigna-, bruna- og heimilistryggingum sem viðskiptavinir geta keypt núna á netinu.

Við erum eina félagið sem er að bjóða upp á  app  fyrir  viðskiptavini þar sem þeir geta séð yfirlit yfir öll sín iðgjöld, eigin áhættu, skilmála og tilkynnt tjón. Þannig að við erum að þróa þjónustuna einstaklingsmegin talsvert mikið í takt við það sem er að gerast núna í þessum stafræna heimi.

Sem tæki í aukinni sjálfvirkni, þ.e. í sölu og ráðgjöf, þá er auðvitað einfaldast að byrja einstaklingsmegin þar sem þú ert í grunninn bara með 2-3 vörur sem allir kaupa, þ.e. bíla-, heimilis-, bruna- og fasteignatryggingar. Það eru tiltölulega einfaldar vörur og tæknin er komin þangað þar sem ekkert mál er að byggja upp góða þarfagreiningu sem þú getur bara séð um sjálfur í gegnum netið. Þannig að við byrjuðum þar og höfum verið lengi að selja tryggingar í gegnum netið.

Við fórum einnig í ákveðna vinnu varðandi vörumerkið okkar og komum með nýtt merki í janúar á þessu ári. Meðal annars til þess að styðja við aukið vöruframboð  TM  á ýmsum sviðum. Það hefur líklega ekki farið fram hjá mörgum að við reyndum að kaupa Lykil í sumar og þó að þær samningaviðræður hafi runnið út í sandinn þá erum við ekkert hætt í þeim pælingum.“

Sérðu þróunina fara meira út í  fjármögnunarstarfsemi líkt og Lykill sinnir?

„Þetta snýr í raun að fjármögnun, fjármálatengdum afurðum, lífeyrissparnaði og sparnaði almennt. Það má segja að það séu frekar óljós skil á milli fjármálastarfseminnar. Þetta er ekki lengur bankinn, tryggingafélagið og fjármögnunarfyrirtækið allt í sitthvoru lagi heldur eru línurnar orðnar óljósari. Ég held að tryggingafélag sem ætlar að reiða sig á gamla góða módelið áfram muni á endanum bara deyja.“

Hvernig sérðu fyrir þér að almennar tæknibreytingar eins og sjálfkeyrandi bílar eða aukin áhersla á net- og gagnaöryggi muni breyta tryggingastarfsemi?

„Varðandi sjálfkeyrandi bíla að þegar þeir verða komnir á þann stað sem menn ætla með þá, þá munu þeir ekkert keyra á eða allavega mun minna og hver verður þá þörfin fyrir tryggingar? Bílatryggingar eru langstærsti tryggingaflokkurinn þannig að maður sér það alveg í hendi sér að tryggingariðgjöld til framtíðar verði fallandi, allavega í þessum flokki.

Þá kemur upp sú spurning hvort eitthvað annað komi í staðinn. Líklega verða ábyrgðartryggingar á framleiðslu og tæknibúnaði algengari. Í þessu samhengi má t.d. nefna „cyber“ tryggingar sem geta náð til allt frá því að óprúttinn aðili nái að hakka sig inn í sjálfkeyrandi bíl eða komist inn í gögn eða kerfi ákveðins fyrirtækis. Þetta eru tryggingar sem eru til og við erum að selja.“

Er þetta tryggingastarfsemi sem hefur verið eða mun færast í aukana?

„Þrátt fyrir lekann sem varð hjá  Vodefone  fyrir nokkrum árum þá eru þessar tryggingar ekki algengar. Maður hélt að það myndi ýta við fyrirtækjunum að fara að kaupa sér tryggingar gagnvart tjónum sem þessum. Kannski var það vegna þess að tjónið sjálft var ekki nægjanlega mikið, þ.e. fjárhagslegt tjón. Það varð auðvitað ákveðinn ímyndarskaði og brestur á trausti en fjárhagslegt tjón varð ekki mikið. Ég held það þurfi einfaldlega svoleiðis mál að koma upp svo menn fari að hugsa sinn gang varðandi þetta.

Þessar tryggingar bæta einfaldlega fjárhagslegan skaða af svona innbroti. Það eru alveg dæmi um að það hafi verið ráðist inn í banka og heimabönkum lokað og menn hafi beðið um lausnargjald til þess að losa um aðgangana. Það er eðlilega viðkvæmt mál fyrir banka að viðurkenna það að einhver hafi ráðist á þá og þá þarf að borga þessum aðilum sem er kostnaðurinn við að lenda í svona árás og þá getur tryggingin bætt það. Þetta er reyndar umdeilt og beinlínis bannað í sumum löndum að tryggja bætur vegna lausnargjalds og þannig fjármagna refsiverða háttsemi. Það þarf samt að verða vitundarvakning með þetta. Þegar við höfum verið að kynna þessar tryggingar þá höfum við talað fyrir frekar daufum eyrum. Kannski vegna þess að við höfum ekki verið með nógu einfalda og staðlaða vöru en það stendur til bóta.

Þrátt fyrir að það hafi gengið hægt að selja þessar tryggingar hérlendis þá er þetta ört vaxandi starfsemi hjá tryggingafélögum erlendis þar sem hjá mörgum fyrirtækjum er þetta ein stærsta hættan. Ef fyrirtæki á borð við  Facebook  geta ekki verndað sín gögn fullkomlega þá getur það líklega enginn. Maður sér bara toppinn á ísjakanum þar sem þessi mál eru vandræðaleg fyrir fyrirtækin og þau vilja fela þetta fram í rauðan dauðann. Þess vegna sjáum við ekki öll þessi dæmi. Það er kannski vandamálið okkar við að selja þessa tryggingu að vandamálið er að mörgu leyti illsýnilegt. Á endanum verða nær öll fyrirtæki hugbúnaðarfyrirtæki. Það er því nokkuð augljóst að rekstraráhætta fyrirtækjanna liggur þarna.“

Nánar er rætt við Sigurð í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .