Mjög hávært kall hefur verið frá almenningu um að heilbrigðiskerfinu verði breytt. Til vitnis um það hafa ríflega 86 þúsund manns skrifað nafn sitt á undirskriftalista Kára Stefánssonar "Endurreisum heilbrigðiskerfið".

Bæði Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra og Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra nefndu heilbrigðismálin í ræðum sínum á Alþingi þegar ný stjórn tók við. Bjarni sagði að allt frá árinu 2009 hefði fjárfestingarstigi ríkisins verði haldið alltof lágu og það hefði meðal annars bitnað á heilbrigðiskerfinu. Sigurður Ingi sagði að uppbygging heilbrigðiskerfisins væri augljóslega langtímaverkefni og yrði ekki leyst í eitt skipti fyrir öll á einu kjörtímabili.

Hins vegar má ljóst vera að Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra muni leggja áherslu á að koma frumvarpi um breytingar á lögum um sjúkratryggingar í gegnum þingið. Frumvarpið miðar að því að taka upp nýtt greiðsluþátttökukerfi í heilbrigðisþjónustu. Nýja kerfið á að tryggja að enginn þurfi að greiða meira en nemur ákveðinni hámarksfjárhæð í hverjum mánuði sem ákvörðuð verður með reglugerð og að jafna greiðslubyrði sjúkratryggðra.

Þá hefur Viðskiptablaðið heimildir fyrir því að von sjá á frumvarpi frá Illuga Gunnarssyni menntamálaráðherra, sem felur í sér umfangsmiklar breytingar á lánafyrirkomulagi Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN). Líklegt er að Illugi vilji ná að klára það mál fyrir kosningar í haust.

Nánar er fjallað um málið í VIðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .