Kjartan Þór Eiríksson framkvæmdastjóri Kadeco, þróunarfélags Keflavíkurflugvallar hefur ákveðið að segja starfi sínu lausu samkvæmt fréttatilkynningu frá félaginu. Við hlutverki hans tekur Marta Jónsdóttir sem til þessa hefur starfað sem lögfræðingur félagsins.

Samkvæmt fréttatilkynningunni er verkefnum Kadeco að stórum hluta til lokið og fram undan er endurskoðun á starfsemi félagsins. Félagið var stofnað af stjórnvöldum árið 2006 og hefur Kjartan verið framkvæmdastjóri þess frá þeim tíma. Markmiðið með stofnun félagsins var að að koma eignum sem ríkið tók yfir á varnarsvæðinu á Miðnesheiði í hagfellda notkun með sérstakri áherslu á hagsmuni nærsamfélagsins.

Á Ásbrú búa nú um 2.500 manns auk þess sem þar starfa á annað hundrað fyrirtæki og stofnanir með yfir 800 starfsmenn. Fjárfesting á svæðinu frá árinu 2006 er metin á yfir eitt hundrað milljarða króna. Þá hefur sala eigna skilað ríkissjóði um tíu milljörðum króna.

Nýverið fundaði stjórn Kadeco með Kjartani Þór og fór fram á upplýsingar um fjárfestingar félags í helmingseigu hans í fasteignum á Ásbrú í Reykjanesbæ eins og áður hefur verið fjallað um. Félög í eigu Kjartans eða tengd honum hafa keypt þrjár fasteignir af Kadeco fyrir 150 milljónir króna í heildina.

Í tilkynningunni segir Kjartan Þór Eiríksson, fráfarandi framkvæmdastjóri Kadeco:

„Ég er þakklátur fyrir þau tíu ár sem ég hef farið fyrir Kadeco og ánægður með þann árangur sem við höfum náð. Við höfum nú selt nær allar þær eignir sem félagið fékk til umsýslu með góðum hagnaði fyrir ríkið. Á sama tíma hefur byggst upp lífleg íbúabyggð og fjölbreytt atvinnustarfsemi á Ásbrú sem hefur styrkt samfélagið hér á Suðurnesjum mikið. Það liggur því fyrir að félagið stendur nú á tímamótum og fyrirsjáanlegt er að breytingar muni verða á hlutverki þess og starfsemi. Því tel ég að núna sé rétti tíminn fyrir mig til að láta af störfum hjá félaginu.“

Í tilkynningunni segir einnig Georg Brynjarsson stjórnarformaður Kadeco:

„Við þökkum Kjartani Þór fyrir vel unnin störf í þágu Kadeco og óskum honum velfarnaðar í því sem hann tekur sér fyrir hendur. Stjórn félagsins mun á næstu vikum endurskoða starfsemi og stefnu félagsins í samstarfi við hlutaðeigandi aðila á svæðinu. Þrátt fyrir minnkandi fasteignaumsvif er mikill fjöldi verkefna í gangi hjá félaginu og markmið endurskipulagningarinnar er að varðveita uppsafnaða þekkingu innan Kadeco og tryggja viðfangsefnum félagsins varanlegan farveg."