Lýsing hf. hefur ráðist í skipulagsbreytingar á félaginu til að mæta nýjum og ögrandi verkefnum í fjármögnunarstarfsemi og styrkja innviði félagsins. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá fyrirtækinu.

Lýsing hefur ráðið til sín þrjá nýja starfsmenn, þau Sverri Viðar Hauksson, Guðrúnu Jónsdóttur og Árna Huldar Sveinbjörnsson. Sverrir er viðskiptafræðingur og hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri nýs viðskiptaþróunarsviðs. Guðrún er einnig viðskiptafræðingur og hefur tekið við sem yfirmaður áhættustýringar hjá Lýsingu. Þá hefur Árni, sem er héraðsdómslögmaður, verið ráðinn yfirlögfræðingur fyrirtækisins og framkvæmdastjóri innheimtu- og lögfræðisviðs.

Í tilkynningunni segir að á síðastliðnum árum hafi nýir starfsmenn verið ráðnir í  ýmsar lykilstöður hjá Lýsingu um leið og lítil starfsmannavelta hefur verið hjá fyrirtækinu. Nú starfa tæplega 50 manns á fimm sviðum hjá Lýsingu.

Lýsing stefnir á að bjóða upp á ýmsar nýjungar á fjármögnunarmarkaði og hefur þegar hrint í framkvæmd Flotaleigu Lýsingar og vaxtalausum lánum ásamt bílaumboðum. „Lögð er áhersla á gagnsæi og festu með því að bjóða fjármögnunarleiðir án umstangs og óvæntra útgjalda sem tryggja viðskiptavinum jafnara sjóðstreymi og auðvelda þeim áætlanagerð. Auk þess hefur Lýsing nýlega keypt og tekið við Lykli, eignaleigusafni MP banka, til að auka við og styrkja rekstur sinn,“ segir í tilkynningunni.