Marel hefur tilkynnt um skipan Folkerts Bölger í starf yfirmanns alþjóðlegrar framleiðslu- og aðfangastýringar Marel (e. Executive Vice President Global Supply Chain) frá og með 1. júní 2017. Hann tekur sæti í framkvæmdastjórn félagsins og mun heyra beint undir Árna Odd Þórðarson, forstjóra Marel. Folkert tekur við starfinu af Paul van Warmerdam sem nú lýkur störfum hjá Marel að því er kemur fram í tilkynningu Marel til Kauphallarinnar.

Folkert Bölger hefur síðan 1. mars 2017 leitt alþjóðlega aðfangastýringu innan félagsins sem yfirmaður aðfangastýringar( e. Chief Procurement Officer). Í nýju hlutverki mun hann bera ábyrgð á framleiðslukerfi og aðfangastýringu félagsins á heimsvísu með það að leiðarljósi að styðja við frekari vöxt og verðmætasköpun félagsins.

Folkert er 51 árs og hefur alþjóðlega stjórnunarreynslu af stýringu aðfangakeðja og rekstri. Áður en hann gekk til liðs við Marel var hann yfirmaður rekstrar-og aðfangastýringar hjá Bang & Olufsen í Danmörku  (e. Vice President of Operations and Procurement) Auk þess hefur hann sinnt margvíslegum stjórnunarstörfum hjá Philips og Siemens-VDO í Asíu og Evrópu. Folkert býr ásamt eiginkonu sinni og þremur börnum í nágrenni Eindhoven í Hollandi.

Haft er eftir Árna Oddi Þórðarssyni, forstjóra Marel í tilkynningunni: „Ég vil þakka Paul van Warmerdam fyrir góð störf í þágu Marel undanfarin ár. Við erum ánægð með að Folkert Bölger hefur samþykkt að taka að sér nýtt og viðameira hlutverk. Ég óska honum velfarnaðar í nýju starfi og býð hann velkomin í framkvæmdastjórn Marel.”