Um áramót urðu eftirfarandi breytingar í sölu og ráðgjafa teymi fiskeldisfyrirtækisins Pentair VAKI. Allir starfsmennirnir búa yfir mikilli þekkingu og reynslu í fiskeldi, einkum í Noregi og Skotlandi. Fyrirtækið greinir frá þessu í fréttatilkynningu.

David Jarron hefur tekið við starfi alþjóðlegs sölustjóra fiskeldis en David hefur starfað í söluteymi Pentair VAKA í hátt í 20 ár, m.a. sem sölustjóri fiskeldis í Skotlandi og mun reynsla hans nýtast söluteyminu vel.

Magnús Þór Ásgeirsson hefur tekið við sem sölustjóri fiskeldis á Íslandi.  Magnús hóf störf hjá Pentair VAKA árið 2011 og hefur starfað sem alþjóðlegur sölustjóri Árvaka (Riverwatcher) og mun hann sinna því hlutverki áfram.

Júlíus Bjarnason hefur tekið við nýju starfi sölustjóra fiskeldis í Evrópu en hann hefur starfað í söluteymi Pentair VAKA síðan 2017. Júlíus hefur margra ára reynslu af sölumálum og er menntaður rafmagnsverkfræðingur.

Gareth Hammond er fiskeldisfræðingur og hefur tekið við sem sölustjóri fiskeldis í Skotlandi. Gareth hefur starfað hjá Pentair VAKA frá 2016. En hann sá áður um sölu og ráðgjöf Biomass Daily í Skotlandi. Gareth hefur yfirgripsmikla reynslu af fiskeldi en hann starfaði áður hjá Scottish Sea Farms.

Preben Strand hefur tekið við sem sölustjóri fiskeldis í Noregi. Preben hefur átt farsælan feril í söluteymi Pentair VAKA síðan 2010 en hann hefur mikla reynslu úr fiskeldisgeiranum og starfaði áður hjá Havbruk Institutt Bergen sem fiskeldisfræðingur.  Stefnt er að því að ráða nýjan sölufulltrúa til að starfa við hlið Prebens nú í vor.

John Arve Kleppe hefur tekið við nýju starfi sem alþjóðlegur sölustjóri Sea Pen Aeration (loftun sjókvía) en hann hefur starfað í söluteymi Pentair VAKA í 4 ár. John Arve er fiskeldisfræðingur.

Thor-Jacob Larsen hefur tekið við nýju starfi sem alþjóðlegur sölustjóri Biomass Daily (lífmassamælar fyrir sjókvíar) en hann hefur verið hluti af söluteymi Pentair VAKA í Noregi í 10 ár. Thor-Jacob er sjávarlíffræðingur að mennt.

Aukið vöruúrval og betri þjónusta

Pentair VAKI áður VAKI Fiskeldiskerfi ehf. hefur einbeitt sér að hátæknibúnaði fyrir iðnvætt fiskeldi í yfir 30 ár um allan heim. Fiskeldisfyrirtæki eru vel kunnug Pentair VAKA sem var keypt í nóvember 2016 af Pentair Aquatic Systems og er Pentair VAKI því orðinn hluti af stóru alþjóðlegu fyrirtæki.

Vöruúrval eykst til muna

„Pentair VAKI er í örum vexti og hefur vöruúrvalið aukist til muna. Til viðbótar við allar þær vörur sem Pentair VAKI hefur þróað og selt um árabil eins og fiskiteljara, stærðarmæla, flokkara, fiskidælur og fóðurkerfi verður nú boðið upp á Point4 súrefnissteina og eftirlitsbúnað margskonar, UV filtera, vatnsdælur af öllum stærðum, hreinsikerfi, loftun, ljós, ráðgjöf og hönnun á heildarlausnum í endurnýtingakerfum í fiskeldi," segir Björg Ormslev Ásgeirsdóttir, markaðsstjóri Pentair VAKA.

Samkvæmt tilkynningunni er markmiðið með breytingunum að auka þjónustu við viðskiptavini. Áfram verði mikil áhersla á markaðstengda vöruþróun og spennandi tímar séu því framundan hjá fyrirtækinu.