Emil Michael yfirmaður hjá Uber og næstráðandi á eftir Travis Kalanick forstjóra fyrirtækisins hefur verið sagt upp störfum. Kemur uppsögnin í kjölfarið á skýrslu sem Eric Holder fyrrverandi dómsmálaráðherra Bandaríkjanna vann fyrir Uber þar sem hann mælti með því að breytingar yrði gerðar á fyrirtækjamenningu félagsins.

Í frétt BBC um málið kemur fram að stjórn fyrirtækisins samþykkti einróma að innleiða allar þær breytingar sem lagðar voru til í skýrslunni. Verður skýrsla í heild sinni birt á morgun.

Einnig er talið líklegt að Travis Kalanick forstjóri og stofnandi Uber muni taka sér tímabundið leyfi frá störfum eða að hann muni færa sig til innan fyrirtækisins.

Eric Holder var í febrúar síðastliðnum fenginn til þess að gera úttekt á starfsháttum og fyrirtækjamenningu innan Uber eftir að Susan Fowler, fyrrum verkfræðingur hjá fyrirtækinu greindi frá því að hún hafði orðið fyrir kynferðislegri áreitni í starfi sínu. Sagði Fowler að stjórnendur Uber hafi sýnt lítil viðbrögð við þessum alvarlegu ásökunum.

Í skýrslunni er meðal annars lagt til að Michael yrði sagt upp störfum og að fjölga ætti sjálfstæðum stjórnarmönnum hjá fyrirtækinu.