Hugbúnaðarfyrirtækið Wise hefur tilkynnt um skipulagsbreytingar sem fela m.a. í sér að framkvæmdastjórum fækkar í fjóra úr sex. Félagið greinir jafnframt frá ráðningu Gunnars Inga Traustasonar, Tinna Kára Jóhannessonar og Hallgerðar Jónu Elvarsdóttur auk þess sem Björn Þórhallsson tekur við nýrri stöðu.

Gunnar Ingi Traustason kemur nýr inn í framkvæmdastjórn Wise og fer fyrir nýju sviði vöruþróunar. Gunnar kemur frá fyrirtækinu CoreData sem Wise festi kaup á í lok árs 2021, þar sem hann var einn eigenda. Hann hefur unnið í upplýsingatækni alla sína starfstíð, en áður en hann gekk til liðs við CoreData starfaði hann hjá Íslandsbanka. Gunnar hefur lokið MBA prófi frá Háskólanum í Reykjavík og kerfisfræði frá sama skóla.

Aðrir í framkvæmdastjórn félagsins eru Stefán Þór Stefánsson sem stýrir þjónustu- og ráðgjafasviði, Inga Birna Ragnarsdóttir sem stýrir markaðssviði og Elín Málmfríður Magnúsdóttir sem stýrir fjármálasvið Wise.

Tinni Kári Jóhannesson kemur jafnframt nýr inn til Wise og fer fyrir mannauðsmálum en það svið heyrir undir fjármálasvið félagsins og er ný staða hjá félaginu. Tinni kemur frá Góðum samskiptum þar sem hann vann sem ráðgjafi á sviði vinnustaðamenningar, við mannauðsmál og ráðningar. Áður starfaði hann hjá Capacent og Waterstone Human Capital. Tinni lauk meistaraprófsgráðu frá Háskóla Íslands árið 2017.

Nokkrar breytingar hafa einnig verið gerðar á sölusviði félagsins. Björn Þórhallsson hefur verið ráðinn sem forstöðumaður sviðsins, en hann hefur starfað á sölusviði Wise frá árinu 2005 og nú síðast sem sölustjóri fyrir Ísland.

Hallgerður Jóna Elvarsdóttir hefur samhliða verið ráðin inn sem sölustjóri en hún starfaði hjá Wise á árunum 2013-2018 og kemur frá Smyril Line þar sem hún starfaði sem forstöðumaður innflutningsdeildar.

Jóhannes Helgi Guðjónsson, forstjóri Wise:

„Síðustu ár hefur lausnaframboð Wise breikkað mikið til að styðja við þá stafrænu vegferð sem okkar viðskiptavinir eru á. Sú uppbygging heldur áfram og ég er virkilega ánægður að fá Gunnar Inga inn til að leiða okkar vöruþróun inn í nýja tíma. Vegferð Wise felur í sér gríðarlegan vöxt, en starfsfólki fyrirtækisins hefur fjölgað um tæp 50% á rétt rúmlega tveimur árum. Tinni er einnig lykilmaður í þeirri stefnubreytingu sem Wise er að taka í mannauðsmálum og þróun á vinnustaðamenningu sinni.”