Breytingar hafa verið gerðar á framkvæmdahópi um losun fjármagnshafta. Þrír sérfræðingar bætast í hóp sérfræðinga sem starfað hafa með ráðgjöfum stjórnvalda að losun fjármagnshafta í umboði stýrinefndar sem fjármála- og efnahagsráðherra veitir forystu. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Fjármála- og efnahagsráðuneytinu.

Þá mun Freyr Hermannsson, forstöðumaður fjárstýringar Seðlabanka Íslands, fara úr hópnum en í stað hans kemur Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri eignastýringar hjá MP banka og verður varaformaður hópsins ásamt Benedikti Gíslasyni. Glenn Kim mun áfram starfa sem formaður hópsins.

Tveir starfsmenn frá Seðlabankanum

Seðlabanki Íslands hefur tilnefnt tvo starfsmenn bankans til að starfa í framkvæmdahópnum: Ingibjörgu Guðbjartsdóttur, framkvæmdastjóra gjaldeyriseftirlits Seðlabankans,og Jón Þ. Sigurgeirsson, framkvæmdastjóra alþjóðasamskipta og skrifstofu bankastjóra.  Á meðan þau starfa í hópnum mun Ingibjörg ekki gegna daglegum störfum við stjórn gjaldeyriseftirlits og Jón Sigurgeirsson hætta sem stjórnarformaður Eignasafns Seðlabanka Íslands.

Eftir breytingarnar er hópurinn þannig skipaður:

  • Glenn V. Kim, formaður
  • Benedikt Gíslason, varaformaður
  • Sigurður Hannesson, varaformaður
  • Eiríkur S. Svavarsson, hæstaréttarlögmaður
  • Ingibjörg Guðbjartsdóttir, Seðlabanka Íslands
  • Jón Þ.Sigurgeirsson, Seðlabanka Íslands.