Minnihluti efnahags- og viðskiptanefndar telur breytingar á virðisaukaskatti og hækkun barnabóta vera ómarkvissar og illa undirbúnar. Enginn ágreiningur er með minni- og meirihluta nefndarinnar að rétt sé að einfalda kerfi með virðisaukaskatt og breikka skattstofna, né að fella niður vörugjöld eins og lagt er til. Þetta kemur fram í nefndaráliti minnihlutans . Breytingarnar eru þar sagðar munu auka ójöfnuð.

„Hinsvegar sé fráleitt að fjármagna þá aðgerð með auknum álögum á viðkvæmasta útgjaldalið lágtekjuheimila, matarinnkaup,“ segir í álitinu. Nefndarmenn í minnihluta eru Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingar, Guðmundur Steingrímsson, formaður Bjartrar Framtíðar og Steingrímur J. Sigfússon þingmaður Vinstri-grænna.

Hefði mátt vanda betur til verka

Í greiningu meirihluta á heildaráhrifum frumvarpsins, sé miðað við að hækkun neðra þreps virðisaukaskatts verði úr 7% í 11%, kemur fram að mest verði skattalækkunin hjá neðstu tekjutíundum. Hlutfallsleg áhrif á ráðstöfunartekjur neðstu tekjutíundar verði hækkun um 0,45%, borið saman við um 0,26% hækkun efstu tekjutíundar. Sé því um skattalækkun að ræða.

Minnihluti nefndarinnar hafnar þessari greiningu og telur heildaráhrifin verða til þess að auka ójöfnuð. Nefnir hann sem dæmi að lækkun á vörugjöldum á heimilistæki, bílavörur, raftæki og byggingavörur nýtist síður samfélagshópum sem hafi ekki ráð á að kaupa dýr tæki.

Muni gagnast tekjuháum

Minnihlutinn mótmælir því ekki að breytingarnar feli í sér skattalækkun. Hins vegar muni þær helst gagnast tekjuhæstu þjóðfélagshópunum. „Þá verður ekki betur séð en að ríkisstjórnin stefni að því að auka ráðstöfunartekjur efstu tekjutíundarinnar um nærri 40.000 kr. á ári á meðan ráðstöfunartekjur fimm neðstu tekjutíundanna aukast fjórfalt minna eða um 10.000 kr. á ári,“ segir í áliti minnihlutans.

Skiptir þar máli að minnihlutinn telji mótvægisaðgerðir sem felist meðal annars í hækkun barnabóta vera ómarkvissar. „Með frumvarpinu hefur fjármála- og efnahagsráðherra markað stefnu um endurskoðun fyrirkomulags neysluskatta. Hér að framan hefur verið bent á atriði sem betur hefðu mátt fara við einföldun virðisaukaskattskerfisins. Nauðsynlegt er að vandað verði betur til verka. Í ljósi þess hve mótvægisaðgerðir frumvarpsins eru ómarkvissar eru allar líkur á að breytingar auki efnalegan ójöfnuð og nýtist þeim til ávinnings sem hafa mestar tekjur fyrir,“ segir í áliti minnihlutans.

Jöfnuður mikill á Íslandi

Ójöfnuður mælist meðal þess lægsta sem þekkist í heimi á Íslandi. Þetta má meðal annars ráða af mælingum á GINI-stuðli. Samkvæmt gögnum EUROSTAT mældist GINI stuðull á Íslandi 0,24 árið 2012. Ójöfnuður mælist meiri á öðrum Norðurlöndum, að undanskildum Noregi þar sem stuðullinn er 0,23. Sé stuðullinn borinn saman við lönd Evrópusambandsins kemur í ljós að GINI stuðullinn í sambandinu er 0,31.

Minnihluti nefndarinnar telur að þetta gæti breyst verði frumvarpið samþykkt í óbreyttri mynd.