Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, hefur ákeðið að breyta skipulagi ráðuneytisins. Helstu breytingar snúa að tilflutningi málefnia fjármálamarkaðarins til fjármála- og efnahagsráðuneytis. Málefnin munu falla undir skrifstofu efnahagsmála og fjármálamarkaðar, að því er segir í tilkynningu á vef ráðuneytisins.

„Skrifstofan hefur umsjón með undirbúningi og eftirfylgni með efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar, samhæfingu opinberrar hagstjórnar og kynningu á efnahags- og hagstjórnarmálum innanlands og utan.

Í því skyni annast skrifstofan mat á þróun og horfum í efnahagsmálum og samskipti við Hagstofu Íslands um gerð þjóðhagsspár. Skrifstofan annast gerð hagfræðilegra athugana, vöktun hagstærða, samskipti við erlend matsfyrirtæki og ýmsar alþjóðlegar stofnanir á sviði efnahagsmála.

Skrifstofan annast málefni fjármálamarkaðar, lagaumgjörð og eftirlit á því sviði. Þar undir fellur umgjörð og eftirlit með fjármálafyrirtækjum, málefni verðbréfamarkaða, innstæðutryggingar og Tryggingarsjóður innstæðueigenda og fjárfesta, vátryggingar og vátryggingarstarfsemi, viðlagatryggingar, greiðslukerfi og greiðsluþjónusta.

Undir verksvið skrifstofunnar falla jafnframt peningamál, gjaldeyrismál og mál er lúta að fjármálastöðugleika, að svo miku leyti sem þau málefni falla undir ráðuneytið. Að auki fer skrifstofan með málefni Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitið að því marki sem þau heyra undir ráðuneytið,“ segir á vef ráðuneytisins.