Samkomulag hefur náðst milli borgaryfirvalda í Árósum, verktaka og Landic Property's um breytingar á risastóru fasteignaverkefni sem Landic hafði ætlað að ráðast í við höfnina í Árósum.

Fallið hefur verið frá því að reisa Lighthouse turninn og verkefnið endurskipulagt. Að sögn Viðars Þorkelssonar, framkvæmdastjóra Landic, er þetta mjög ásættanleg niðurstaða fyrir þá. „Verkefnið hefur tekið á sig annað form sem er mjög skynsamlegt í ljósi aðstæðna í Danmörku. Menn hafa séð, að það byggja 300 lúxusíbúðir á þessum tímum hafi ekki verið skynsamlegt," sagði Viðar.

Á næsta ári er ætlunin að hefja byggingu á tveimur íbúðablokkum og hóteli. Áfram er gert ráð fyrir að Landic sjái um verkefnið sem framkvæmdaaðili. „Þetta er góð lausn á stóru máli," sagði Viðar. Aðspurður um fjárhagsleg áhrif þessa á Landic sagði hann að það væri lítið til skemmri tíma litið. Hann sagði hins vegar að menn hefðu séð að afar litlar líkur hefðu verið á að vinna verkefnið eins og það var skilgreint í upphafi. Eftir þetta samkomulag hefðu þeir val um það hvort ráðist verður í Lighthouse verkefnið.