CCP hf. hefur boðið til hluthafafundar sem verður haldinn þann 12. nóvember nk. Á fundinum er m.a. að kjósa nýja stjórn félagsins auk þess sem það á að veita stjórn félagsins heimild til að auka við hlutafé.

Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins munu vera breytingar á stjórn CCP en fulltrúi fjárfestingasjóðsins New Enterprise Associates mun taka sæti í stjórn CCP.

Veita stjórn heimild til að auka við hlutafé

Í fundarboði kemur einnig fram að veita eigi stjórn félagins heimild til þess að auka við hlutafé félagsins sem nemur tæplega 1,4 milljörðum króna í nýjum flokki B-bréfa. Hluthafar munu samkvæmt tillögunni afsala sér forkaupsrétti af nýjum hlutum en stjórn félagsins mun ákveða verð bréfanna og aðra skilmála við sölu bréfanna. Félagið er að gefa út B hlutabréf í fyrsta skipti.

Nýju hlutabréfin munu fá forgang við slit eða gjaldþrot félagsins sem nemur upphaflegu kaupverði auk ógreidds uppsafnaðra arðgreiðslna en hluthafar geta breytt bréfunum í A hluti hvenær sem þeir kjósa.