Breytingar hafa verið gerðar á stjórn Fiskveiðihlutafélagsins Venus, í kjölfar eigendabreytinga hjá félaginu. Ingibjörg Björnsdóttir, ekkja Árna Vilhjálmssonar, er hætt í stjórn félagsins. Í hennar stað er sestur Vilhjálmur Vilhjálmsson. Þá hættir Kristín Vilhjálmsdóttir í varastjórn og setjast þau Auðbjörg Steinbach og Loftur Bjarni Gíslason í varastjórn.

Þetta kemur fram í yfirliti yfir stjórnarbreytingar á fundi í byrjun septembermánaðar.

Eins og Viðskiptablaðið greindi frá hafa þær Kristín Vilhjálmsdóttir og Ingibjörg Björnsdóttir selt hlut sinn í félaginu. Samanlagður hlutur þeirra nam 31,44% og eru kaupendurnir Kristján Loftsson, forstjóri Hvals, Birna Loftsdóttir og Sigríður Vilhjálmsdóttir. Þremenningarnir eiga eftir viðskiptin 79% hlutafjár og Fiskveiðihlutafélagið sjálft á afganginn. Fiskveiðihlutafélagið á meðal annars 39,5% í Hval hf.