Áætlaður kostnaður við sameiningu ráðuneyta og breytingar á húsnæði stjórnarráðsins gæti numið allt allt hálfum milljarði króna. Nú þegar er kostnaðurinn við stofnun innanríkis- og velferðarráðuneyta kominn í 243 milljónir króna, sem er 80 milljónum meira en gert var ráð fyrir. Þá er áætlað að sameining ráðuneyta kosti á milli 125 og 225 milljónir króna, að því er fram kemur í minnisblaði forsætisráðuneytis.

Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag í tengslum við þingsályktunartillögum um sameiningu ráðuneyta sem Alþingi samþykkti í gær. Þar segir m.a. að fyrirhugaðar breytingar á stjórnarráðinu hafi ekki verið kostnaðarmetnar af fjármálaráðuneytinu þar sem þær eru heimilaðar með þingsályktun og þurfi ekki lagabreytingu.

Breytingarnar fela m.a. í sér að ráðuneytum verður fækkað úr tíu í átta. Þá verður nýtt atvinnuvegaráðuneyti stofnað en fjármála,- efnahags- og viðskiptaráðuneyti sameinuð.