Formenn flokka á þingi hafa komist að samkomulagi um að leita álits almennings á tveimur nýjum greinum stjórnarskrárinnar. Frumvarpsdrögin tvö eru kynnt á samráðsgátt ríkisstjórnarinnar í dag. Annars vegar er um að ræða ákvæði um umhverfisvernd og hins vegar auðlindaákvæði.

Formenn flokka hafa fundað reglulega frá upphafi síðasta árs og rætt mögulegar breytingar á stjórnarskránni. Á fundi formanna í dag var fært til bókar að vinna við áðurnefnd tvö ákvæði sé komin svo langt á leið að rétt þótti að leita álits almennings. Ítrekað er að birting þeirra í samráðsgáttinni feli ekki í sér skuldbindingu til að leggja frumvörpin fram á Alþingi.

Hér að neðan er að finna ákvæðin í heild sinni en hægt er að smella hér til að lesa greinargerð með þeim og gera athugasemd við ákvæðin.

Auðlindaákvæðið:

Auðlindir náttúru Íslands tilheyra íslensku þjóðinni. Nýting auðlinda skal grundvallast á sjálfbærri þróun.

Náttúruauðlindir og landsréttindi sem ekki eru háð einkaeignarrétti eru þjóðareign. Enginn getur fengið þessi gæði eða réttindi tengd þeim til eignar eða varanlegra afnota. Handhafar löggjafarvalds og framkvæmdarvalds fara með forræði og ráðstöfunarrétt þeirra í umboði þjóðarinnar.

Veiting heimilda til nýtingar á náttúruauðlindum og landsréttindum sem eru í þjóðareign eða eigu íslenska ríkisins skal grundvallast á lögum og gæta skal jafnræðis og gagnsæis. Með lögum skal kveða á um gjaldtöku fyrir heimildir til nýtingar í ábataskyni.

Umhverfisverndarákvæðið:

Náttúra Íslands er undirstaða lífs í landinu. Ábyrgð á vernd náttúru og umhverfis hvílir sameiginlega á öllum og skal verndin grundvallast á varúðar- og langtímasjónarmiðum með sjálfbæra þróun að leiðarljósi. Stuðlað skal að því að fjölbreytni náttúrunnar sé viðhaldið og vöxtur lífríkis og viðgangur tryggður.

Allir skulu njóta heilnæms umhverfis. Almenningi er heimil för um landið og dvöl þar í lögmætum tilgangi. Ganga skal vel um náttúruna og virða hagsmuni landeigenda og annarra rétthafa. Mælt skal nánar fyrir í lögum um inntak og afmörkun almannaréttar.

Í lögum skal mælt fyrir um rétt almennings til upplýsinga um umhverfið og áhrif framkvæmda á það svo og til þátttöku í undirbúningi ákvarðana sem áhrif hafa á umhverfið.