Von er á miklum breytingum á tekjuhlið spurningaleiksins vinsæla QuizUp sem framleiddur er af íslenska hugbúnaðarfyrirtækinu Plain Vanilla. Ný útgáfa af smáforritinu er væntanleg seinna á þessu ári og í henni verður lögð áhersla á að sníða auglýsingar með einbeittum hætti að áhugasviði notenda.

Þetta kom fram í erindi Jökuls Sólbergs Auðunssonar, vörustjóra QuizUp, á fundi VÍB um breytt umhverfi fjölmiðla sem haldinn var í Hörpu í fyrradag. Í erindi sínu fjallaði hann um hvernig landslag fjölmiðlamarkaðarins hefur breyst í kjölfar netvæðingar og hvernig bæði fjölmiðlamenn og auglýsendur geta fótað sig í síbreytilegu umhverfi internetsins.

Þar útskýrði hann hvernig virðislíkan auglýsenda skiptist á markaðnum í dag. Fyrsti margfaldari auglýsenda snýr að því til hversu margra neytenda miðill getur náð. Það hafi lengi verið helsta aðdráttarafl dagblaða og annarra hefðbundinna miðla fyrir auglýsendur.

Næsti margfaldari snýr að því hversu gott úrtak af neytendum fæst en miðlar á borð við Facebook nýta sér upplýsingar um notendur sína til að miðla auglýsingum til þeirra með skilvirkari hætti en ella t.a.m. með því að beina tilteknum auglýsingum að kyni og aldri notenda.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .