Hjá flestum lággjaldaflugfélögum þarf að greiða sérstaklega fyrir val á ákveðnu sætu um borð. Frá því að Wow air hóf starfsemi hefur félagið gert reglulegar breytingar á slíku gjaldi, samkvæmt úttekt Túrista .

Þar kemur fram að í sumarbyrjun 2012, þegar Wow air hóf starfsemi, hafi kostað 1.490 krónur að taka frá sæti um borð. Í vetur hafa farþegar á styttri flugleiðum greitt 299 til 2.499 krónur fyrir ákveðin sæti, en gjaldið er núna komið í 399 til 2.999 krónur. Sé flugtíminn hins vegar lengri en fjórir klukkutímar greiða farþegarnir 499 til 3.499 krónur. Hæst er þó verðið hjá Airberlin sem rukkar allt að 3.820 krónur fyrir val á sæti.

Svanhvít Friðriksdóttir, upplýsingafulltrúi Wow air, segir í samtali við Túrista að félagið sé stöðugt að skoða gjaldskrá sína og stilla hana af. Segir hún verðið bæði hafa hækkað og lækkað eftir því hvernig viðbrögð viðskiptavina hafi verið.

Hægt er að sjá verðlagningu annarra flugfélaga á vef Túrista.