Fjöldi mála fara í fyrstu umræðu á þinginu í dag. Eins og kunnugt er orðið hefur Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, mælt fyrir því að innheimta virðisaukaskatts verði með þeim hætti að neðra þrep hækki úr 7% í 12% og að efra þrep lækki úr 25,5% í 25%, ásamt öðrum aðgerðum.

Í gær fór fram fyrsta umræða um málið en henni verður haldið áfram í dag. Fjármálaráðherra hefur verið gagnrýndur fyrir það að hækkun matarskattsins muni hafa verst áhrif á tekjulægstu hópanna. "Það hefur ekkert breyst frá því að hæstvirtur forsætisráðherra sagði á sínum tíma að hækkun matarskattsins kæmi langverst við tekjulægstu hópana. Ekkert af því sem hæstvirtur ráðherra sagði og ekkert sem er hægt að finna í þessari vanburðugu greinargerð breytir því," sagði Össur Skarphéðinsson til að mynda um fjárlagafrumvarpið á Alþingi í gær.

Þá hafa bæði ASÍ og VR fullyrt að fjárlagafrumvarpið muni hafa neikvæð áhrif á ráðstöfunartekjur þeirra tekjulægstu og sé jafnvel „aðför að þeim sem minna mega sín."

Gagnrýni byggð á rangfærslum

Viðskiptaráð Íslands hefur reiknað út áhrif fjárlagafrumvarpsins í heild á heimili eftir ráðstöfunartekjum. Samkvæmt útreikningum ráðsins mun fjárlagafrumvarpið hafa best áhrif á tekjulægsta hóp samfélagsins og mun kaupmáttur þess hóps hækka um 0,5% að jafnaði.

Í greiningu Viðskiptaráðs segir: „Ef heildarmyndin er skoðuð, í stað þess að taka sérstaklega út ákveðna flokka neysluvara, má sjá að heildaráhrif boðaðra breytinga á neyslusköttum eru að þau auka kaupmátt heimilanna. Matur og drykkjarvörur hækka vissulega í verði, sem og þjónusta veitingahúsa, en flestir aðrir neysluflokkar lækka í verði og sumir hverjir verulega. Þegar allt er tekið saman kemur í ljós að ráðstöfunartekjur allra heimila munu hækka."

Í ljósi þessa sé bæði rangt og villandi að halda því fram að fjárlagafrumvarpið komi sér verst fyrir tekjulægstu hópa þjóðfélagsins. „Þar sem tekjulægstu heimilin verja hærra hlutfalli ráðstöfunartekna sinna í neyslu en önnur koma þessar breytingar sér best fyrir þau," segir í greiningunni.