Að sögn Jóns Garðars Ögmundssonar, eiganda Lysts ehf., sparar það félaginu að minnsta kosti 40 milljónir króna að segja upp samningnum við McDonalds hamborgarakeðjuna. Félagið hefur nú tekið upp nafnið Metro og rekur þrjá staði á Íslandi undir því nafni.

Að sögn Jóns Garðars er félagið stöðugt að kaupa umbúðir og þær renna hratt í gegn hjá félaginu. Jón Garðar telur að þetta kosti um 10 milljónir króna að skipta um umbúðir en það vinnist til baka á um það bil einum og hálfum mánuði vegna lægra innkaupaverðs. ,,Nú er allt verslað á Íslandi; kjöt, brauð, ostur og annað. Það munar um það því þetta eru um ein og hálf milljón brauðbolla á ári,“ sagði Jón Garðar.

Lyst rekur þrjá veitingastað í dag eins og áður sagði. Jón Garðar sagði að enn væri hægt að auka söluna á þessum þremur stöðum og átti ekki von á að stöðunum yrði fjölgað í bráð.

Að sögn Jóns Garðars fengu þeir stuðning frá móðurfélaginu McDonalds enda hefðu þeir litið svo á að það væri ekki hagur þeirra að keyra íslensku starfsemina í þrot. „Eins og þetta er núna með öllum þeim höftum sem eru í umferð með landbúnaðarvörur þá er þetta glórulaust.“

Á félagið einn

Jón Garðar keypti Lyst ehf. af Kjartani Erni Kjartanssyni árið 2004. Að sögn Jóns Garðars á hann félagið einn. Hann sagðist gera ráð fyrir að afkoman yrði jákvæð í ár en síðasta ár var mikið basl vegna hruns krónunnar.

Jón Garðar sagðist eiga von á að kostnaður á næsta ári myndi lækka um tugi milljóna króna en þjónustugjöldin til McDonalds ein og sér eru um 40 milljónir króna. Einnig sagðist hann eiga von á því að hráefniskostnaður lækkaði verulega. ,,Þetta verður miklu betra eftir þetta.“

Lyst hefur greitt þjónustgjald til McDonalds sem nam 5% af veltu í ár og hefði átt að vera 6% á næsta ári en samningurinn gerði ráð fyrir að gjaldið væri stighækkandi.

Jón Garðar sagði að hann hefði leitað að íslensku nafni en hefði ekki fundið neitt í fljótu bragði og því hefði Metro verið niðurstaðan enda vísaði það til lestarkerfis og hraða. ,,Hjá okkur leggjum við gríðarlega mikið upp úr hraða og við notum það í okkar markaðsstarfi.“