„Útfærslan verður einhvers konar bráðabirgðaútgáfa til eins árs á meðan við erum að vinna að nýju kerfi varðandi fiskveiðigjaldið,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson sjávarútvegsráðherra í samtali við RÚV um fyrirhugaða breytingu á veiðigjaldinu. Lögunum verður breytt strax til bráðabirgða í eitt ár, að hans sögn. Málið var rætt á fundi ríkisstjórnarinnar í morgun og kynnti sjávarútvegsráðherra þar minnisblað um málið en stefnt er að því að hann leggi fram frumvarp um breytingu á veiðigjaldinu á Alþingi í næstu viku.

Ráðherra sagði í samtali við RÚV ekki hægt að útfæra núverandi löggjöf og því þurfi að hverfa frá þeim. Ekki er að hans mati hægt að gera endanlegar breytingar á veiðigjaldinu.

„Það þarf að gera það vegna þess að það er bráðabirgðaákvæði sem rennur út núna og lögin áttu að taka gildi 1. september. En það geta þau ekki vegna þess að þau eru ófær,“ sagði Sigurður Ingi.