Í kjölfar kaupa Kaupþings Búnaðarbanka hf. á danska bankanum FIH Erhvervsbank A/S fyrr í haust, verður dótturfélagi bankans í Danmörku, Kaupthing Bank A/S, skipt upp og það selt til Sparisjóðs Færeyja (Føroya Sparikassi P/F), en sparisjóðurinn á fyrir 25% hlut í Kaupthing Bank A/S. Áður en Sparisjóður Færeyja eignast það hlutafé sem eftir stendur, 75%, verður hluti starfsemi Kaupthing Bank A/S færður inn í FIH. Óskuldbindandi viljayfirlýsing um framsalið á hlutafé og eignum hefur verið undirrituð.

FIH mun kaupa þrjú svið Kaupthing Bank A/S, Fyrirtækjaráðgjöf, Einkabankaþjónustu og Miðlun. Útlánastarfsemi Kaupthing Bank A/S verður hins vegar áfram til staðar í félaginu og verður þar með hluti af starfsemi Sparisjóðs Færeyja í Danmörku. Samhliða viðskiptunum mun Kaupþing Búnarbanki hf. kaupa 49% hlutafjár í Kaupthing Føroyar Virðisbrævameklarafelag P/F af Sparisjóði Færeyja en þar með verður allt hlutafé Kaupthing Føroyar í eigu Kaupþings Búnaðarbanka hf.

Í ofangreindri viljayfirlýsingu eru fyrirvarar um niðurstöðu kostgæfnisathugunar og samþykki stjórna FIH og Kaupþings Búnaðarbanka hf. Stjórn Sparisjóðs Færeyja hefur þegar samþykkt viðskiptin. Áætlaður söluhagnaður er um ISK 400 milljónir. Þess er vænst að viðskiptin verði gengin í gegn í janúar 2005.