Í dag var undirritaður samningur um innleiðingu framleiðslutengdrar fjármögnunar Landspítala með það markmiði að tryggja árangursríka heilbrigðisþjónustu og hagkvæma nýtingu fjár.

Með honum eigi framlögin til spítalans að samræmast raunverulegum kostnaði þannig að auðvelt verði að sjá hvernig framlögunum er varið og hvernig fjármunirnir nýtast.

Byggt á ítarlegri kostnaðargreiningu

Samningurinn er á milli Landspítala og Sjúkratryggingar Íslands og byggir hann á alþjóðlega DRG flokkunarkerfinu. Felur framleiðslutengd fjármögnun í sér að í stað þess að byggt sé alfarið á föstum fjárframlögum sem ákveðin séu ár fram í tímann, er meginhluti fjármögnunarinnar byggður á ítarlegri kostnaðargreiningu þeirra verka sem þar eru unnin og teljast til klínískrar starfsemi.

Þó þessi fjármögnunaraðferð sé nýmæli hér á landi hefur hún lengi tíðkast erlendis, m.a. í sjúkrahúsrekstri annars staðar á Norðurlöndunum. Hefur farið fram mikil undirbúningsvinna síðustu ár innan Landspítalans í tengslum við flokkun og skráningu samkvæmt kerfinu sem er forsenda samningsins.

Mun skiptast í fastar og breytilegar greiðslur

Framleiðslutengdu fjárframlögin verða tvíþætt og munu þau skiptast annars vegar í fastar greiðslur uppá 40% og breytilegar greiðslur uppá 60%, en hann reiknast út frá umfangi þjónustunnar, þ.e. fjölda verka og DRG-greiðslueininga sem að baki liggja.

Fasti hlutinn tekur mið af áætluðu umfangi þjónustunnar miðað við fjölda verka sem samið er um fyrirfram. Föstu greiðslurnar koma í byrjun hvers mánaðar en breytilegu greiðslurnar fara svo fram samkvæmt bráðabirgðauppgjöri hvers liðins mánaðar og síðan með heildaruppgjöri að ári liðnu.

Áfram verða verkefni tengjast hlutverki spítalans á sviði kennslu og vísinda ásamt stofnkostnaðar, meiriháttar viðhaldi og þess háttar fjármagnað með föstum fjárlögum auk sértekna og gjafa.