Með hliðsjón af breyttum aðstæðum í kortaviðskiptum hefur VALITOR  ákveðið að færa almennt úttektartímabil VISA kreditkorta þannig að það standi frá 22. degi hvers mánaðar til 21. dags næsta mánaðar. Nýja fyrirkomulagið tekur gildi 18. febrúar 2011 og stendur það tímabil því fram til 21. mars.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Valitor.

„Febrúar hentar vel fyrir þessa hliðrun á dagsetningum þar sem hann er styttri en aðrir mánuðir. Þar af leiðandi verður úttektartímabilið ekki óeðlilega langt og ætti því ekki að valda korthöfum óþægindum.

Breytir litlu fyrir korthafa

Gjalddagi kortanna verður óbreyttur: 2. dag næsta mánaðar eftir að úttektartímabili lýkur. Engin breyting verður heldur á boðgreiðslum né öðrum föstum greiðslum korthafa.

Um 30% af kortaviðskiptum innlendra söluaðila, sem eru í viðskiptum við VALITOR, fara fram á almennum tímabilum en um 70% á svokölluðum breytilegum tímabilum sem verða með samskonar  sniði og áður. Með breytilegum tímabilum er átt við þær dagsetningar sem verslanir auglýsa sem ný kortatímabil en langflestar verslanir sem selja almennar neysluvörur nýta sér breytilegu tímabilin.

Ljóst er því að nýja fyrirkomulagið, sem felst í því að hliðra til dagsetningum á almenna tímabilinu, breytir litlu fyrir korthafa.

Barn síns tíma

Allt frá árinu 1983 hefur almennt úttektartímabil VISA korthafa staðið frá 18. degi hvers mánaðar til 17. dags næsta mánaðar. Aðalástæða þess að kortatímabilinu lauk þann 17. var sú að handskrá þurfti allar sölunótur. Sú vinna var tímafrek og því nauðsynlegt að hafa nokkra daga til að koma allri skráningu í gegn áður en reikningar voru gefnir út. Tækninni hefur fleygt fram og nú tekur vinnslan mun skemmri tíma en í árdaga kortaviðskipta á Íslandi, auk þess sem miklar breytingar hafa orðið á umhverfi greiðslumiðlunar,“ segir í tilkynningunni.