Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, lagði í gær fram frumvarp til laga um almennar íbúðir. Frumvarpið fjallar um uppbyggingu félagslegra leiguíbúða með stofnframlögum ríkis og sveitarfélaga og er yfirlýst markmið þess að bæta húsnæðisöryggi efnaminni fjölskyldna og einstaklinga.

Með frumvarpinu eru skilgreind svokölluð almenn íbúðafélög, sem ætlað er að hafa með höndum eignarhald og umsjón með rekstri svokallaðra almennra íbúða. Þá eru ákvæði um stofnframlög ríkis og sveitarfélaga til uppbyggingar almennra íbúða. Íbúðalánasjóður mun annast framkvæmd laganna.

Áður hafði Eygló lagt fram þrjú frumvörp á yfirstandandi þingi sem snúa að húsnæðismarkaðnum. Frumvörpin kveða á um breytingar á réttarstöðu leigjenda, rekstur húsnæðissamvinnufélaga og húsnæðisbætur. Eygló mun hins vegar ekki leggja fram á haustþingi frumvörp sem snúa að umgjörð húsnæðislána á Íslandi, aðlögun að EES-reglum og að ný Íbúðastofnun taki við veitingu stofnframlaga, en samkvæmt þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar átti að leggja þau fram á haustþingi.

Veita sjóðnum enn framlög

Lengi hefur legið fyrir að Íbúðalánasjóður á við rekstrarvanda að stríða. Vandinn felst að miklu leyti í því að útlán sjóðsins eru uppgreiðanleg meðan skuldir sjóðsins, íbúðabréfin, eru það ekki. Eftirspurn eftir lánum sjóðsins hefur verið lítil og því hefur sjóðurinn átt erfitt með að ávaxta lausafé sitt. Meðal annars vegna þessa hafa hreinar vaxtatekjur, það er munurinn á vaxtatekjum vegna útlána og vaxtagjöldum vegna skulda, verið litlar. Vaxtamunurinn hefur ekki dugað fyrir kostnaði af útlánatöpum og hefur það bitnað á eigin fé sjóðsins.

Ríkið hefur þurft að veita sjóðnum framlög vegna þessa og hafa þau numið tugum milljarða króna frá árinu 2009. Á fjárlögum 2015 var gert ráð fyrir að framlög til Íbúðalánasjóðs myndu nema 5,7 milljörðum á árinu og gert er ráð fyrir 1,3 milljarða króna framlagi á næsta ári. Ný útlán sjóðsins frá ársbyrjun til októberloka námu 5,1 milljarði en á sama tíma greiddu lántakar upp lán sem nemur 28,5 milljörðum, að því er fram kemur í áliti meirihluta fjárlaganefndar við fjárlagafrumvarp næsta árs.

Ítarlega er fjallað um fjármögnun íbúðalánamarkaðarins í Viðskiptablaðinu sem kom út í dag. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .

Athugasemd: Af prentútgáfu greinarinnar má ráða að engin þeirra fjögurra frumvarpa sem húsnæðismálaráðherra hefur lagt fram á yfirstandandi þingi snúi að breyttu hlutverki Íbúðalánasjóðs. Samkvæmt frumvarpi til laga um almennar íbúðir mun Íbúðalánasjóður annast framkvæmd laganna. Þetta er hér með áréttað.