Almenni lífeyrissjóðurinn og Viðskiptablaðið efna til opins fundar á Hótel Natura um séreignarsparnað miðvikudaginn 18. október klukkan 20.

Efnt er til fundarins vegna breytinga sem gerðar hafa verið á lagaumhverfi séreignarsparnaðar. Nú geta einstaklingar, sem eru að kaupa sína fyrstu fasteign, notað viðbótarlífeyrissparnað í 10 ár til að safna skattfrjálst upp í útborgun eða inn á höfuðstól fyrstu fasteignar.

Einnig hefur verið gerð sú breyting að launþegar á almennum vinnumarkaði geta greitt 2% af launum (hækkar í 3,5% þann 1. júlí 2018) í svokallaða tilgreinda séreign sem er laus til útborgunar á aldrinum 62 til 66 ára. Einstaklingar geta valið að ávaxta tilgreindu séreignina hjá öðrum en þeim lífeyrissjóði sem viðkomandi er skyldugur að greiða til og geta því valið á milli fjölda ávöxtunarleiða.

Á fundinum verður farið yfir þá kosti sem í boði eru. Gunnar Baldvinsson, framkvæmdastjóri Almenna lífeyrissjóðsins, mun fjalla um hvað þarf að hafa í huga við val á vörsluaðila. Kristjana Sigurðardóttir fjárfestingarstjóri mun ræða um þær ávöxtunarleiðir sem í boði eru og helstu atriði sem þarf að líta til. Þá mun Sigríður Ómarsdóttir skrifstofustjóri kynna nýjungar í þjónustu Almenna lífeyrissjóðsins.

Nánari upplýsingar um fundinn eru hér .