Listi Creditinfo yfir fyrirtæki sem uppfylla skilyrði til þess að teljast framúrskarandi fyrirtæki fer stækkandi með hverju árinu og komust í ár 682 fyrirtæki á listann. Sýnir fjölgunin jákvæða stöðu á atvinnumarkaði hérlendis, en listinn miðast við rekstur áranna 2012 - 2014. Til þess að komast á listann þurfa fyrirtækin að sýna fram á góða viðskiptahætti með sterka innviði.

Fyrstu breytingar á skilyrðunum frá upphafi

Í ár verða þær breytingar á skilyrðunum að fyrirtæki þurfa að vera búin að skila ársreikningi ekki síðar en 1. september til að koma til greina á listann. Er breytingin í samræmi við breytt lög um skil á ársreikningum fyrirtækja en áður þurfti að skila ársreikningum fyrir 31. desember.

Skilyrðin fyrir að komast á listann eru eftirfarandi:

  • Hafa skilað ársreikningum til RSK síðustu þrjú ár.
  • Vera í lánshæfisflokki 1-3.
  • Að sýna rekstrarhagnað (EBITA) þrjú ár í röð.
  • Að ársniðurstaða sé jákvæð þrjú ár í röð.
  • Rekstrarform ehf., hf. eða svf.
  • Eiginfjárhlutfall sé 20% eða meira þrjú rekstrarár í röð.
  • Að eignir séu 80 milljónir eða meira þrjú ár í röð.
  • Skráður framkvæmdastjóri í hlutafélagaskrá.
  • Að vera virkt fyrirtæki skv. skilgreiningu Creditinfo.