*

þriðjudagur, 2. mars 2021
Innlent 14. september 2019 19:01

Breytt umhverfi

Íshúsið hefur gengið frá kaupum á heildversluninni Kristjáni G. Gíslasyni, en hún hafði verið í eigu sömu fjölskyldunnar frá 1941.

Sveinn Ólafur Melsted
Tómas Hafliðason, framkvæmdastjóri og annar af eigendum Íshússins.
Eyþór Árnason

Íshúsið ehf. hefur fest kaup á öllum hlutabréfum í heildversluninni Kristjáni G. Gíslasyni ehf. Umrædd heildsala var stofnuð árið 1941 af samnefndum kaupmanni. Félagið flytur m.a. inn raforkuvörur, iðnaðarvörur og kælimiðla, og hefur það alla tíð verið í eigu Kristjáns og fjölskyldu hans.

Íshúsið er á meðal stærstu heild- og smásöluaðila fyrir loftræsti- og kælikerfi hér á landi. Fyrirtækið var stofnað árið 2004 og á rætur sínar að rekja til innflutningsdeildar Kælivéla frá árinu 1983. Fyrirtækið er einn stærsti innflutningsaðili landsins á kælimiðlum. Íshúsið er fjölskyldufyrirtæki í eigu feðganna Hafliða Sævaldssonar og Tómasar Hafliðasonar.

Fyrrnefndur Tómas, sem er framkvæmdastjóri Íshússins, segist sjá gríðarleg tækifæri með kaupunum á Kristjáni G. Gíslasyni. „Þetta er fyrirtæki með langa og merkilega sögu og við hlökkum til að halda rekstrinum áfram."

Stórar breytingar í farvatninu

Tómas segir að kaupin muni hjálpa Íshúsinu að takast á við stórar breytingar sem eru væntanlegar í umhverfi fyrirtækisins.

„Þetta eru stórar breytingar sem hafa með nánast öll kælitæki á landinu að gera. Það er búið að setja kvóta á innflutning á kælimiðlum og mun því magn kælimiðla minnka á næstu árum. Með þessum kaupum erum við að tryggja okkur og okkar viðskiptavinum nægt úrval af kælimiðlum.

Það eru að verða mjög miklar breytingar á þessum markaði og fyrir fyrirtæki þýðir þetta að á næstu árum munu algengir kælimiðlar falla út af markaðnum og nýir koma inn í staðinn. Þetta verða stærstu breytingar í áratugasögu kælikerfa og miðlarnir verða ekki þeir sömu og áður. Við erum að horfa til þess að styrkja stöðu okkar inni á þessum markaði, til þess að hjálpa okkur að takast á við þessar miklu breytingar."

Að sögn Tómasar eru þessar breytingar fyrst og fremst tilkomnar vegna umhverfissjónarmiða. „Þetta á við á alheimsvísu. Það er einnig von á umhverfissköttum, þar sem hátt hlutfall af veltu er skattlagt og félög innan geirans eru að undirbúa sig undir þetta. Munurinn hér á landi og í flestum öðrum löndum er að þar hefur fólk verið meðvitað um þessar breytingar í mörg ár og undirbúið þær hægt og rólega, en hér á Íslandi er þessu hrint af stað með litlum fyrirvara. Það er að mínu mati verið að fara alltof hratt í breytingarnar hér heima." 

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér