Breytt verðskrá mun taka gildi hjá Póstinum 1. nóvember nk. Taka verðbreytingarnar aðeins til sendinga á fjölpósti og sendinga á pökkum sem vega 0-10 kg, að því er kemur fram í fréttatilkynningu frá Póstinum.

Í tilkynningunni segir að ástæða verðbreytinga séu ný lög sem kveði á um að gjald fyrir sendingar endurspegli raunkostnað en verði ekki jafnað út þvert yfir landið með stuðningi frá ríkinu eins og fyrri lög kváðu á um. Gildistaka nýrra laga verði til þess að fyrirtækið aðlagi gjaldskrá sína sem sumstaðar verði til þess að verð hækki en annarsstaðar muni þau lækka. Einnig taki í gildi ný verðskrá fyrir fjölpóst sem taki mið af breyttum kostnaði við slíkar sendingar.

„Fyrri lög kváðu á um að sama gjaldskrá væri fyrir póstsendingar, óháð hvar á landinu sendandi eða móttakandi væri staddur. Markmið þeirra laga var að kostnaður við sendingar á pósti væri sá sami um allt land. Útfærsla þessa markmiðs fól í sér að ríkissjóður niðurgreiddi hluta sendingarkostnaðar fyrir viðskiptavini á strjálbýlli svæðum til móts við sendanda.

Lagabreytingar frá því í sumar kveða á um að gjald fyrir sendingar á 0-10 kg pökkum endurspegli kostnað við flutning og mun ríkið einnig hætta að niðurgreiða kostnað við sendingar,“ segir í fréttatilkynningu Póstsins.

Gildistaka nýrra laga þýði að Pósturinn þurfi að aðlaga gjaldskrá sína á pökkum innanlands 0-10kg sem sumstaðar verði til þess að verð hækki en annarsstaðar muni þau lækka.

„Einnig tekur gildi ný verðskrá fyrir fjölpóst sem tekur mið af breyttum raunkostnaði við slíkar sendingar. Fjölpóstur hefur í gegnum tíðina fengið að fljóta með öðrum bréfasendingum sem varð til þess að viðbótarkostnaður við þessa dreifingu var óverulegur þar sem bréfin báru mestan hluta kostnaðar. Vegna fækkunar á bréfum hefur Pósturinn nú viðkomu á mun færri stöðum vegna, fjölpóstur kallar hins vegar á viðkomu á hverjum stað og hefur raunkostnaður við dreifingu hans því aukist. Ný verðskrá fyrir fjölpóst tekur mið að þessum breytingum.

Póstinum er áfram heimilt að viðhafa sömu verðskrá um allt land á bréfum undir 51 grammi. Engin ákvörðun hefur verið tekin um breytingu á verðskrá að svo stöddu og mun Pósturinn því eftir sem áður sinna póstsendingum til allra landsmanna fyrir hönd ríkisins," segir að lokum í tilkynningu Póstsins.